Landsbankinn vörsluaðili 41,36% hlutafjár í Ice Fish Farm

Landsbankinn er vörsluaðili 41,36% hlutafjár í austfirska laxeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm. Tilkynnt var um breytinguna seint í gær í kauphöllinni í Osló. Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fish Farm segir að um sé að ræða hlutabréf Laxa eignarhaldsfélag ehf í Ice Fish Farm. Hlutabréfin hafi verið á vörslureikning hjá Landsbankanum eftir sameiningu Laxa Fiskeldi ehf og Fiskeldi Austfjarða ehf.

Ice Fish Farm er stærsti leyfishafi á Íslandi með leyfi til eldis á 36.800 tonnum. Af því eru 34.500 tonna leyfi fyrir frjóum laxi og 2.300 tonn á ófrjóum.

Mein­virkt af­brigði ISA-veirunn­ar sem get­ur valdið blóðþorra kom upp í kvíum fyrirtækisins og var á síðasta ári slátrað öll­um fiski í kví­um fyr­ir­tæk­is­ins á helstu eld­is­svæðunum í Reyðarf­irði og Beruf­irði. Nokkuð langt er í það að fiskur verði kominn í sláturstærð. Af þeim sökum verða tekjur með minna móti næsta árið eða svo.

Í nóvember sl. var tilkynnt í kauphöllinni í Osló að Måsoval væri að leita að meðeiganda að Ice Fish Farm. Fyrirtækið var metið á 33 milljarða ísk króna í kauphöllinni í gær.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi er ekki vikið að fjárhagsstöðu helstu eldisfyrirtækja landsins né lagt mat á þann áhætturekstur sem fiskeldi í sjó er.

Uppfært kl 11:16. Leiðrétt er það sem stóð í fréttinni að hlutabréfin séu í eigu Laxar Fiskeldi ehf. Hið rétta er að eigandinn er Laxar eignarhaldsfélag ehf.

Af vefsíðu kauphallarinnar í Osló.

DEILA