Í gær hófust myndatökur við nýja kvikmynd í Ósvör í Bolungavík. Þar fara fram útimyndatökur en innanhússenur verða teknar upp í húsnæði Netagerðarinnar gömlu á Ísafirði. Um er að ræða mynd í fullri lengd sem er samstarfsverkefni Íslenskra aðila, breskra ,írskra og belgískra. Guðmundur Arnar Guðmundsson er framleiðandi og segist hann vera ánægður með aðstöðuna í Bolungavík. Byggt hefur verið hús í Ósvörinni sem leikmynd sem verður svo rifið að tökum loknum. Gert er ráð fyrir að tökum verði lokið í lok mars.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri var að vonum ánægður með að bæjarfélagið hafi orðið fyrir valinu og segir verkefnið skapa tekjur í samfélaginu og lyfti andanum. Hann segir að ef vel gengur þá auki það líkur á því að fleiri verkefni af þessu tagi fylgi á eftir.
Þórður Pálsson er leikstjóri. Unnið hefur verið að því í langan tíma að koma verkefninu á rekspöl. Hann sagði um góða hrollvekju að ræða sem allir ættu að geta haft gaman af. Myndin á að gerast í gamla daga. Aðspurður hvort um draugagang væri að ræða svaraði hann því til að skrýtir hlutir fari að gerast og síðan fari menn að láta lífið og hver á fætur öðrum og hver og einn vonast til þess að verða ekki sá næsti.
Þórður sagði að myndin ætti að klárast næsta vetur og fari þá í sýningu á kvikmyndahátíðum. Hann vonaðist eftir því að myndin komi á kvikmyndatjaldið á næsta ári 2024.
Þórður Pálsson sagði aðstandendur verkefnisins njóta góðvildar bæjarbúa í Bolungavík, á Ísafirði og einnig á Flateyri og að ekki væri hægt að gera svona mynd án þeirra.