KSÍ þing á Ísafirði

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Núna kl 11 hefst í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði 77. ársþing KSÍ , Knattspyrnusambands Íslands og gert er ráð fyrir að því ljúki um kl 17 í dag.

Alls eiga 144 rétt til setu á þinginu sem fulltrúar sinna sambanda, þar af eru 4 frá Hérðassambandi Vestfjarða, HSV, þrír frá Vestra og einn frá Herði.

Fyrir þinginu er lagður ársreikningur síðasta starfsárs og ársskýrsla stjórnar, auk fjárhagsáætlunar fyrir 2023. Tekjur síðasta árs voru um 2.047 milljónir króna og hagnaður um 300 milljónir króna. Fjölmargar tillögur eru um lagabreytingar, mótafyrirkomulag og fleira.

Þá er boðuð tillaga um knattspyrnumannvirki og ferðakostnað þar sem skorað er á hið opinbera að styðja við uppbyggingu mannvirkja um land allt og aðstoða við ferðakostnað vegna leikja og æfinga:

„Ársþing KSÍ samþykki að skorað verði á sveitarfélög og ríkisvaldið að styðja við uppbyggingu knattspyrnumannvirkja um allt land. Við viljum þakka fyrir þann mikla stuðning sem þegar hefur verið veittur en bendum á að víða um land er aðstaðan óboðleg, sem hefur í för með sér brottfall, fækkun liða og mikil ferðalög. Auk þess, vegna fækkunar og samþjöppunar liða á landsbyggðinni hafa ferðalög lengst til muna, ekki síst að vetrarlagi. Á það bæði við um börn og fullorðna iðkendur. Ferðakostnaður er mikill baggi á starfi félaganna og margir foreldrar ráða ekki við aukinn ferðakostnað vegna ferða til og frá æfingum og keppni. Því skorum við á sveitarfélög og ríkisvaldið að leita leiða til að aðstoða félög á landsbyggðinni enn frekar með ferðakostnað vegna leikja og æfinga.“

DEILA