Knattspyrna: bæjaryfirvöld fá gagnrýni

Pétur Bjarnason, fyrrverandi leikmaður Vestra.

Pétur Bjarnason, sem alla tíð hefur leikið hefur knattspyrnu með BÍ/Bolungavík og síðar Vestra, hefur skipt yfir í Fylki í Reykjavík. Hann segir í viðtali við fotbolti.net að óviðunandi aðstaða til knattspyrnuiðkana á veturna og skortur á áhuga hjá bæjaryfirvöldum í Ísafjarðarbæ sé ástæða þess að hann skipti um lið og flutti sig suður.

Pétur lætur vel af Vestra og segir gott starf unnið þar en „að það virðist ekki vera áhugi hjá þeim sem einhverju ráða í þessu bæjarfélagi að bæta aðstöðuna sem í boði er á veturna – sem er enginn. Það er sorglegt ár eftir ár að bjóða upp á æfingar á þessu ónýta gervigrasi og vera bara á parketinu allan veturinn. Það var alveg erfitt að taka þessa ákvörðun en ég er mjög sáttur með hana í dag.“

Hann segir aðstöðuleysið að vetri til gera það að verkum að Vestri standi höllum fæti í baráttunni um úrvalsdeildarsæti. Það valdi því að liðið kemur verr undirbúið til leiks að vori og er lengi í gang.

Bæjaryfirvöld hafa slegið af borðinu að sinni hugmyndir um knattspyrnuhús sem myndi gera knattspurnuæfingar innanhúss að vetri til mögulegar, en ákveðið hefur verið að ráðast í það að setja gervigras á grasvöll félagsins og verður það gert á næstu tveimur árum samkvæmt framkvæmdaáætlun Ísafjarðarbæjar og kostar um 220 m.kr.

Þetta myndband af æfingu á þriðjudagskvöldið í snjókomunni tók formaður knattspyrnudeildar Vestra Samúel Samúelsson:

https://share.icloud.com/photos/0cb9U1c-5dtmTNI6u9iOREn9A

DEILA