Jóhann Torfason, Ísafirði var sæmdur tveimur heiðurskrossum á ársþingi KSÍ, sem haldið var á Ísafirði um helgina. Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ sæmdi Jóhann heiðurskrossi ÍSÍ við upphaf þings KSÍ og í hófi KSÍ þingfulltrúa á laugardagskvöldið fékk Jóhann heiðurskross KSÍ. Er það einsdæmi að sami einstaklingur fái bæði heiðursmerkin sama daginn.
„Jóhann hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íslenskrar knattspyrnu auk annarra starfa í þágu íþróttahreyfingarinnar þar sem hann hefur m.a. átti sæti í vinnuhópi um Ferðasjóð íþróttafélaga sem ÍSÍ hefur umsjón með fyrir hönd ríkisins. Ómetanlegt er það starf sem Jóhann hefur innt af hendi fyrir íþróttahreyfinguna í sinni heimabyggð hér fyrir vestan og ávallt borið hagsmuni hennar fyrir brjósti í öllum sínum störfum“ segir í yfirlýsingu frá Vestra af þessu tilefni.
Samúel Samúelsson formaður knattspyrnudeildar Vestra var við sama tilefni sæmdur silfurmerki KSÍ.
Tinna Hrund Hlynsdóttir, Ísafirði var kjörin í aðalstjórn KSÍ á þinginu til tveggja ára.
