Ísafjörður: öldungaráð vill samþætta heimaþjónustu

Öldungaráð Ísafjarðarbæjar kom saman í síðustu viku og þar var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að sækjast eftir þátttöku í þróunarverkefni um samþætta heimaþjónustu, sem hefjast á á árinu, þar sem félags- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er eldra fólki í heimahúsi er samþætt undir sameiginlegri mannafla- og fjármálastjórn.

Tillagan gengur nú til bæjarstjórnar og verður væntanlega tekin fyrir á næsta bæjarstjórnarfundi. Tilefni þessarar samþykktar var tillaga bæjarfulltrúa Í-lista um málefni eldri borgara frá 14. október 2021 sem þáverandi bæjarstjórn vísaði til öldungaráðs til umsagnar. Um þá tillögu segir öldungaráðið að það muni mæta til fundar við velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar til að ræða tillögurnar.

Í tillögum Í listans frá 2021 er lagt til að settur verði á fót vinnuhópur til að fara yfir þjónustu við aldraða í Ísafjarðarbæ með því markmiði að samþætta betur heilbrigðis- og félagsþjónustu eldri borgara, og móti tillögur um hvernig hægt er að bæta þjónustuna. Skoðað verði sérstaklega að breyta skipulagi þjónustunnar og að útnefna umboðsmann aldraðra (eða tengilið). Vinnuhópurinn leggi áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að gera eldra fólki kleift að búa sem
lengst heima hjá sér. Ennfremur skoði vinnuhópurinn „sérstaklega sveigjanlegar dagdvalir sem er ein fljótvirkasta og
skynsamlegasta leiðin til að mæta nýjum og aðkallandi áskorunum í að efla þjónustu við eldra fólk og þá sem í dag eru skráðir á biðlistum eftir hjúkrunarrými. Það myndi styðja við búsetu heima og nýta takmarkaða auðlind fagfólks á sem bestan hátt.“

Í tillögunum var einnig vikið að húsnæðismálum aldraðra og þar er lagt til að bæjarstjóra verði falið formlega að leita eftir samstarfi við landssamtök eldri borgara um að koma að uppbyggingu leiguhúsnæðis í Ísafjarðarbæ.

Í öldungaráðinu eiga sæti:

  • Auður Helga Ólafsdóttir formaður
  • Júlíus Hafsteinn Vilhjálmsson aðalmaður
  • Sigríður Magnúsdóttir aðalmaður
  • Kristjana Sigurðardóttir varafulltrúi Félags eldri borgara í Ísafjarðarbæ
  • Guðný Sigríður Þórðardóttir fulltrúi Félags eldri borgara í Ísafjarðarbæ
  • Sigrún Camilla Halldórsdóttir fulltrúi Félags eldri borgara í Ísafjarðarbæ
  • Heiða Björk Ólafsdóttir fulltrúi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Uppfært kl 13:37. Sigrún Camilla Halldórsdóttir segir að tillögur Öldungaráðsins hafi ekkert með tillögur Í listans að gera heldur hafi hún verið mætt til þes „að kynna heildarendurskoðun á þjónustu fyrir eldra fólk á vegum þriggja ráðuneyta , Samtaka sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara sem hófst í júní í fyrra og mun taka fjögur ár. Þar kemur fram að á árinu 2023 hefjast skilgrein þróunarverkefni á 4-6 svæðum á landinu og skoraði ég á Ísafjarðarbæ að taka þátt í verkefninu og óskaði eftir að það væri fært til bókað.“

DEILA