Ísafjörður: landfyllingu við Pollgötu frestað

Teikning Vegagerðarinnar.

Bæjarstjótn Ísafjarðarbæjar frestaði á fimmtudaginn að afgreiða tillögu bæjarráðs um að bæjarstjórn samþykki varp umframefnis, vegna dýpkunar Sundahafnar og uppdælingu efnis, í haf við innanverða Pollgötu.

Bæjarráð tók jákvætt í tillögur um losun umframefnis innan við Pollgötu, skv. minnisblaði Vegagerðarinnar, en um er að ræða 200.000 m3 frá uppdælingu við Sundabakka, með þeim rökum að ávinningurinn af losuninni væri tvíþættur. Annars vegar væri ódýrara að losa efni þarna heldur en í Óshlíðinni og hins vegar myndu framtíðarlandfyllingar við Pollgötu verða mun ódýrari þar sem botninn væri búinn að taka sig og ekki þyrfti að byggja garða á jafn miklu dýpi.

Það var Magnús Einar Magnússon, varaforseti bæjarstjórnar sem bar upp tillögu um frestun , sem svo samþykkt var, meðan aflað væri frekari upplýsinga um málið.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að bæjarstjórnin vilji frá ítarlegri upplýsingar um áhrif losunar efnisins á útrásir bæjarins.

DEILA