Ísafjörður: gervigrasvöllur verður mokaður

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt beiðni knattspyrnudeildar Vestra um að gervigrasvöllurinn á Torfnesi verði mokaður, en þó að hámarki fyrir kr. 300.000 fram á vor og verður kostnaður færður á snjómoksturslið fjárhagsáætlunar. Bæjarráð leggur þó mikla áherslu á að notast verði við tæki sem fara ekki illa með völlinn og undirlag hans.

Jafnframt leggur bæjarráð áherslu á að skipulag moksturs og beiðnir fari í gegnum sviðsstjóra skóla- og tómstunda-sviðs, sem halda skal utan um fjármagn í kringum mokstur vallarins til upplýsinga fyrir bæjarráð.

Í erindi knattspyrnudeildar Vestra segir að deildin óski eftir því að bærinn sjái um að moka að hið minsta hálfan gervigrasvöllinn á virkum dögumi á meðan að það snjóar svona mikið. Staðan er þannig að mfl hefur enga tíma við hæfi i íþróttahúsi hvorki á Ísafirði né i Bolungarvik. Einnig var farið fram á að mokað verði daglega á Torfnesi að húsinu og bilastæðum við húsið.

Í minnisblaði skóla- og tómstundasviðs segir að því hafi ekki haft vitneskju um að til stæði að vera með æfingar á vellinum yfir vetrartímann. Þar af leiðandi var ekki gert ráð fyrir þessum kostnaði í núgildandi fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar.
Skv. upplýsingum frá umhverfis- og eignasviði kostar snjómokstur kr.20.000 per klukkustund og má gera ráð fyrir að það taki 1-2 klst. að moka þann hluta af vellinum sem notaður er til æfinga. Erfitt er að meta hver heildar kostnaðurinn yrði fyrir Ísafjarðarbæ, ef erindið yrði samþykkt, þar sem hann ræðst af veðurfari.