Ísafjarðarbær: vilja breyta verulega úthlutun byggðakvóta

Klakkur ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Birtar hafa verið umsagnir sem borist höfðu þegar bæjarstjórn afgreiddi í byrjun árs tillögur sínar um skiptingu byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs. Um er að ræða 1.091 þorskigildistonn sem skiptist milli fimm byggðakjarna í Ísafjarðarbæ, Ísafjarðar, Hnífsdals, Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar. Mest fer til Flateyrar 300 tonn og minnst til Ísafjarðar 140 tonn.

Alls eru birt sex erindi frá útgerðarmönnum 28 báta í sveitarfélaginu. Tjaldtangi ehf sendir inn umsögn fyrir tvö rækjuskip, Halldór Sigurðsson ÍS og Klakk ÍS, það fyrra er á veiðum í Ísafjarðardjúpi og það síðarnefnda stundar úthafsrækjuveiðar. Hin erindin eru frá útgerðum 26 smábáta.

Í erindi Tjaldtanga ehf er lagt til að 10% byggðakvótans fari til báta sem veiða rækju í Djúpinu og önnur 10% til úthafsveiðiskipa á rækjuveiðum. Þrjátíu prósent byggðakvótans skiptist jafnt milli annarra skipa og loks að 50% byggðakvótans skiptist hlutfallslega miðað við landaða afla.

Gagnrýnt er að 900 tonnum af 1.400 tonnum í sértækum byggðakvóta sem Byggðastofnun ráðstafar sé úthlutað til eins fyrirtækis á Suðureyri sem verði til þess að skekkja verulega samkeppnisstöðu útgerðarfyrirtækja í sveitarfélaginu. Lagt er til að fyrirtæki sem fái af sértækum byggðakvóta fá ekki einnig hlut úr byggðakvóta sveitarfélagsins.

Í tillögum smábátasjómannanna er lagt til að byggðakvótinn verði í einum potti og byggðakjarnapottarnir þannig aflagðir. Vinnsluskylda byggðakvótans verði lögð niður og byggðakvótanum deilt jafnt niður á báta eftir fjölda umsókna þó ekki meira en hver bátur landaði í byggðarlaginu á síðasta fiskveiðiári og að sett verði hámarksúthlutun á bát. Að lokum segir að óskað sé eftir meira gegnsæi og jafnræði við úthlutun byggðakvóta.

Þrír útgerðarmenn smábáta sendu til viðbótar umsögn þar sem þeir áréttuðu sjónarmið sín. Einn vildi að skilgreiningu á fiskvinnslu yrði breytt á þann veg að slæging teldist vinnsla og vísaði til þess að Fjallabyggð hefði fengið það samþykkt í sínum byggðakvótareglum á síðasta fiskveiðiári og annar gagnrýndi að byggðakvóti Suðureyrar hefði verið veiddur af togara úr öðru byggðarlagi og vildi að heimabátar veiddu byggðakvótann. Loks var gagnrýnt að sjóstangveiðibátar fái byggðakvóta sem erlendir ferðamenn nýta á meðan heimabátar eru bundnir við bryggju.

Bæjarstjórn tók ekki tillit til neinna af ofangreindum umsögnum við afgreiðslu sína á úthlutunarreglum byggðakvóta Ísafjarðarbæjar og ekki er getið um það í fundargerð að efni umsagnanna hafi komið til umræðu á fundinum. Áform um að fjallað yrði um umsagnirnar í bæjarráði gengu ekki eftir.

DEILA