Ísafjarðarbær: byggðakvótareglur ræddar á óformlegum vinnufundi

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir í bréfi til Innviðaráðuneytisins dags 26. janúar 2023 að athugasemdir kærenda um byggðakvótareglur sveitarfélagsins séu byggðar á misskilningi. Ástæða þess að umsagnir hafi ekki verið lagðar fyrir bæjarráð sé sú að bæjarráðsfundir 26. des. og 2. jan hafi fallið niður vegna frídaga og þar sem málið hafi þurft að fara fyrir bæjarstjórn og ljúka afgreiðslu sveitarfélagsins fyrir 13. janúar hafi verið ákveðið „að málið skyldi lagt beint fyrir bæjarstjórn til umræðu og samþykktar tillagna um sérreglur, án sérstakrar viðkomu í bæjarráði.“

Bæjarfulltrúar voru boðaðir til vinnufundar kl 16, klst fyrir upphaf bæjarstjórnar þann 5. janúar , þar sem gafst tími til þess að fara yfir umsagnirnar og ræða saman um mögulegar breytingartillögur.

Síðan lýsir bæjarstjóri að aðeins hafi á bæjarstjórnarfundinum komið fram breytingartillaga sem unnin var af öllum bæjarfulltrúum á vinnufundinum.

Þá segir í bréfi bæjarstjóra að sveitarstjórn er ekki skylt að óska eftir ábendingum frá almenningi, útgerðaraðilum eða öðrum hagsmunaaðilum, en var það þó gert. Þá er sveitarstjórn ekki skylt að taka til greina innsendar ábendingar eða athugasemdir. Loks segir bæjarstjóri um þetta atriði: „Ísafjarðarbær telur með hliðsjón af ofangreindu að fylgt hafi verið sveitarstjórnarlögum og stjórnsýslulögum í hvívetna í máli þessu, svo og reglum um meðferð tillagna um byggðakvóta.“

Kærendur telja að bæjarstjóri sé vanhæf vegna stjórnarsetu í eignarhaldsfélaginu Hvetjanda, sem eigi hlut í nokkrum félagögum sem fengið hafa úthlutað byggðakvóta og jafnvel bæjarstjórnin öll sé vanhæf.

Þessu hafnar bæjarstjóri og bendir á að bæjarstjórnin sé aðeins tillöguaðili um sérreglur um úthlutun byggðakvóta en ráðuneytið gefi út reglurnar. „Ekki verður því séð að tillögur um sérreglur samþykktar í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sé
stjórnsýsluákvörðun, sem falli undir hæfisreglur stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlaga.“ og „þar af leiðandi getur bæjarstjóri eða aðrir bæjarfulltrúar ekki talist vanhæfir til töku stjórnsýsluákvörðunar á grundvelli stjórnsýslulaga, sveitarstjórnar-laga eða bæjarmálasamþykktar, enda telst ákvörðun bæjarstjórnar ekki falla undir lögin og vanhæfisreglur þeirra.“

DEILA