Ísafjarðarbær: bókun um skýrslu um fiskeldi

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir í bókun sinni um skýrslu Ríkisenduskoðunar um sjókvíaeldi að skýrslan sé áfellisdómur yfir stjórnsýslu fiskeldis og að hún komi sveitarfélögunum á Vestfjörðum ekki á óvart. Störf tengd eftirliti og rannsóknum þurfi að byggja upp fyrir vestan og trggyja að tekjur af greininni renni heim í hérað.

Bókunin í heild:

„Skýrslan er áfellisdómur yfir stjórnsýslu fiskeldis. Hún kemur sveitarfélögum á Vestfjörðum ekki á óvart sem hafa í mörg ár bent á að efla þurfi rannsóknir og eftirlit í greininni, og að tryggja að ferli leyfisveitinga sé skilvirkt og gott. Aðkoma sveitarfélaga hefur verið lítil og ekki hlustað á raddir úr héraði.

Störf tengd rannsóknum, eftirliti og menntun þarf að byggja upp í nærumhverfi atvinnugreinarinnar. Fiskeldistengd starfsemi fagstofnana hefur verið vanfjármögnuð og ekki skipulögð með tilliti til staðsetningar eða eðlis greinarinnar.

Fiskeldið er nú þegar orðin stór og burðug atvinnugrein í Vestfirsku samfélagi sem er komin til að vera. Tryggja þarf að tekjur komi til nærumhverfis greinarinnar, þannig að sá peningur sem rennur nú í fiskeldissjóð verði meiri.

Með tilkomu skýrslunnar er ljóst að hægt er að fara í aðgerðir til að styrkja og bæta stjórnsýsluna. Þannig geti fiskeldi vaxið í sátt við samfélag og náttúru.“

DEILA