Ísafjarðarbær: 10 ára styrktarsamningur við Edinborgarhúsið

Edinborgarhúsið á Ísafirði.

Bæjarráð hefur samþykkt samning við Edinborgarhúsið um árlegan styrk sem nemur fjárhæð fasteignagjalda til reksturs menningarhúss í Ísafjarðarbæ. Samningurinn er hluti af aðgerðaáætlun með menningarstefnu Ísafjarðarbæjar. Samningurinn gildir í tíu ár, frá 1. janúar 2023.

Á yfirstandandi ári nemur styrkurinn 4,2 m.kr. Tekið er fram að styrkur Ísafjarðarbæjar myndi ekki eignarhluta í húseigninni að Aðalstræti 7 á Ísafirði. Á móti styrknum skal Edinborgarhúsið ehf. standa að rekstri menningarhúss á Ísafirði, s.s. með reglulegu viðburðahaldi, listasýningum og annarri menningardagskrá.

Samningurinn verður lagður fyrir bæjarstjórn til staðfestingar.

DEILA