Icelandic Wildlife Fund: hafa aldrei skilað ársreikningi frá stofnun 2017

Jón Kaldal, ritstjóri.

Umhverfissjóðurinn Icelandic Wildlife Fund hefur aldrei frá stofnun 2017 skilað ársreikningi til Ríkisendurskoðunar eins og þeim er skylt að gera lögum samkvæmt. Þetta kemur fram skýrslu embættisins frá því í janúar 2023 fyrir árið 2021 um sjálfseignarstofnanir og sjóði sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Beiðni Bæjarins besta um síðasta ársreikning svaraði Jón Kaldal með þeim orðum að þessar upplýsingar væru aðgengilegar á þeim opinberu stöðum þar sem þær eiga að vera.

The Icelandic Wildlife Fund er á lista yfir nokkra aðila sem aldrei hafa skilað ársreikningi frá stofnun. Þá eru ársreikningar sjóðsins ekki aðgengilegir hjá ársreikningaskrá Ríkisskattstjóraembættisins.

Í lögunum segir að sá sem ábyrgð ber á sjóði eða stofnun skal eigi síðar en 30. júní ár hvert senda Ríkisendurskoðun reikning sjóðsins eða stofnunarinnar fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðs eða stofnunar hefur verið ráðstafað á því ári.

Ennfremur segir að Ríkisendurskoðun skuli halda skrá yfir heildartekjur og gjöld svo og eignir og skuldir allra skráðra sjóða og stofnana, svo og athugasemdir sínar við framlagða reikninga. Skal færa nýjar upplýsingar í skrána eftir því sem þær berast. Aðgangur að upplýsingum í skránni er öllum frjáls og skal láta í té afrit af henni til þeirra sem eftir því leita.

Um The Icelandic Wildlife Fund, sem nefnir sig einnig íslenska náttúruverndarsjóðinn, var fjallað í Bæjarins besta 13.2. 2020, fyrir réttum þremur árum. Þá sagði Jón Kaldal, ritstjóri vefsíðu IWF , að  einhver misskilningur hafi leitt til þess að ársreikingur 2018 var ekki sendur til Ríkisendurskoðunar og að það verði athugað hver ástæðan er.

Ríkisendurskoðun segir í skýrslu sinni fyrir 2021 að ítrekað sé á hverju ári og gengið eftir skilum á ársreikningi og vekur athygli á að ekki er mælt fyrir um refsikennd viðurlög, svo sem dags- eða vikusektir, sem stjórnvöld gætu beitt vegna síðbúinna skila eða annarrar vanrækslu. Af þessum sökum hefur Ríkisendurskoðun farið þess á leit við dómsmála-ráðuneyti og Alþingi að lögfest verði sektarákvæði.

Ríkisendurskoðun bendir á að í nýjasta áhættumati Ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka sem gefið var út í mars árið 2021 er sérstaklega fjallað um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og ófullnægjandi skil þeirra á ársreikningum síðustu ár. Þá segir í lokaorðum skýrslunnar: „Í áhættuflokkun Ríkislögreglustjóra er áhættan af því að slíkar stofnanir eða sjóðir verði notaðar til að þvætta ólögmætan ávinning metin veruleg. Er því að mati Ríkisendurskoðunar mikilvægt að brugðist verði við sem allra fyrst.“

Stjórn sjóðsins er þannig skipuð: Freyr Frostason, formaður, Arndís Kristjánsdóttir, Haraldur Eiríksson, Inga Lind Karlsdóttir og Hrefna Sætran. Varamenn eru Lilja Einarsdóttir, Ragna Sif Þórsdóttir og Örn Kjartansson.
Ingólfur Ásgeirsson er framkvæmdastjóri.

Ritstjórn vefsíðu og ábyrgðamaður er Jón Kaldal.

DEILA