HVEST: mismunandi langir viðtalstímar

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur tekið upp það fyrirkomulag að móttökuritarar ákveða, á grundvelli stuttrar lýsingar á ástæðu heimsóknar, hverslags tími hentar best. Viðtalstímar eru með þremur mismunandi tímalengd.

Flýtitími, 10 mínútur: Þessi tími er fyrir fljótafgreidd málefni, til dæmis útbrot, ökuskírteini, eyrnaverkur.

Hefðbundinn læknistími, 20 mínútur: Öll almenn læknisþjónusta.

Lengri tími, 40 mínútur: Fyrir erindi sem taka lengri tíma, til dæmis stór vottorð (endurhæfingavottorð), andleg málefni og viðtöl við fólk með flókna sjúkdóma og/eða langa lyfjalista.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að með þessu fyrirkomulagi nýtist tíminn betur og hægt eigi að vera fyrir sjúkling að fá viðtalstíma fyrr og jafnframt að hann henti betur þar sem sumir þurfi styttri tíma en venjulegan og aðrir þurfi lengri. Hann vonast til þess að í heildina verði þetta fyrirkomulag til þess að sjúklingur fái fyrr tíma hjá viðeigandi heilbrigðisstarfsmanni. Ekki þarf að fara í persónulegar eða ítarlegar útskýringar heldur einungis taka fram ástæðu heimsóknar t.d. verkur í fæti, andleg líðan, kvef eða þörf á ákveðinni tegund af vottorði. Að sjálfsögðu er fyllsta trúnaðar gætt hér eftir sem hingað til.

DEILA