Hver borgar hagsmunaverðinum?

Jón Kaldal er ritstjóri og vefstjóri vefsíðu umhverfisjóðsins Icelandic Wildlife Fund og sér einnig um Facebook síðuna. Hann er talsmaður sjóðsins og kemur fram í fjölmiðlum fyrir hans hönd. Sjóðurinn talar fyrir stangveiðihagsmuni og berst hatrammlega gegn sjókvíaeldi og beitir sér hvar sem því verður við komið gegn laxeldinu sem orðinn er stór atvinnuvegur með útflutningstekjur upp á tugi milljarða króna.

Innan fárra ára mun að óbreyttu árlegar tekjur rjúfa 100 milljarða króna múrinn og nálgast mikilvægi þorskstofnsins. Það blandast engum hug um þýðingu fyrir þjóðarhag ef skyndilega yrði tvöfaldað verðmæti þorskafurða. Uppbyggingin stendur yfir og barátta andstæðinga laxeldis er hörð og margvíslegum mótbárum er beitt. Árum saman hefur umhverfismat, leyfisveitingar, breytingar á þegar fengnum leyfum svo nokkuð sé nefnt skipulega verið kært á alla hugsanlega staði. Tilgangurinn er að gera uppbyggingu eins erfiða, kostnaðarsama og tafsama og unnt er. Málafjöldinn til úrskurðarnefndar um umhverfs- og auðlindamál er mikill en þegar skoðað er hvernig kærunum lyktar þá er afraksturinn ótrúlega rýr og fer minnkandi.

fúsir þjónar laxeldisfyrirtækja

Hagsmunavörðurinn Jón Kaldal er önnum kafinn og finnur margt að laxeldinu, það eru norskir eigendur að meirihluta til að fyrirtækjunum, umhverfisáhrif, og lúsasmit svo eitthvað sé nefnt og um þetta er dreift villandi og jafnvel röngum upplýsingum til þess að draga sem verstu mynd upp af eldinu. Svo er það stóra bomban, spillingin sem sögð er grassera vegna laxeldisins. Nýjustu skrifin sem Jón Kaldal ber ábyrgð á eru beinar ásakanir um að sjókvíaeldisfyrirtækin kaupi til sín stjórnmálamenn og starfsfólk ráðuneyta. Fyrir nokkrum dögum voru önnur skrif til þess að varpa „ljósi á hvernig norsku sjókvíaeldisfyrirtækin hafa sótt sér fúsa þjóna úr stjórnmálastétt Íslands.“ og ráðist að Daníel Jakobssyni sem var bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ á síðasta kjörtímabili. Á kjörtímabilinu réði hann sig til starfa hjá Arctic Fish. Því er haldið fullum fetum í skrifunum að fyrir vinnuna sé borgað með því að vinna á vettvangi bæjarstjórnar að hagsmunum fyrirtækisins.

Þetta er ekki nýtt af hálfu Jóns Kaldal. Hann hefur áður ráðist að trúverðugleika sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum sem hafa verið í vinnu hjá laxeldisfyrirtæki á sama tíma. Í viðtali á visir.is 14.2. fyrir ári síðan sagði hann að „Þessi iðnaður er búinn að vefa sig inn í stjórnmálalífið hér við land með mjög lævíslegum hætti. Formaður bæjarráðs á Ísafirði er starfsmaður sjókvíaeldisfyrirtækis, formaður bæjarráðs  í Bolungarvík er starfsmaður sjókvíaeldis og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar,“  Á öðrum stað sagði hann að forystumenn í þremur sveitarfélögum væru starfsmenn fiskeldisfyrirtækja og bætti svo við fyrrverandi ráðherra og alþm Einar K Guðfinnssyni sem hefði „farið beint af Alþingi til samtaka fiskeldisfyrirtækja“ Jón sagðist ekki finna fyrir trausti í garð þeirra (Pressan, 18.2. 2022). Í meginatriðum er þetta endurtekið á vísir.is fyrr í þessum mánuði.

staðlausir stafir

Þessar staðhæfingar eru staðlausir stafir. Um er að ræða meiðandi aðdróttanir og jafnvel beinar ásakanir um óheiðarleika í störfum umræddra einstaklinga. Sveitarstjórnarmennirnir þrír voru á síðasta kjörtímabili allir í meirihluta og allir oddvitar síns lista. En fundargerðir bæjarráða og bæjarstjórna bera það með sér að þeir viku alltaf af fundi við umræðu og atkvæðagreiðslu um mál sem varðandi fyrirtækið sem þeir þá unnu hjá. Með öðrum orðum þeir virtu að fullu hæfisreglur sem gilda um sveitarstjórnarmenn. Það voru því aðrir sveitarstjórnarmenn sem afgreiddu málin sem varðaði fiskeldisfyrirtækin.

Þá er annað sem vert er að vekja athygli á. Í nýlegri og umtalaðri skýrslu Ríkisendurskoðanda um sjókvíaeldi er ekki minnst á sveitarstjórnir og þeirra hlut í uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Skýringin er einföld, sveitarstjórnin hafa ekkert að gera með eftirlit, leyfisveitingar og annað sem helst varðar eldisfyrirtækin. Þau mál eru öll á könnu stofnana ríkisins og viðkomandi ráðherra. Svo hvað er það sem sveitarstjórnarmaður á að geta gert sem hyglar fyrirtækjunum með óeðlilegum hætti? Ríkisendurskoðandi sér það ekki , þess vegna er ekkert um sveitarstjórnarstigið og þátt þess í skýrslunni.

Hver borgar Jóni Kaldal?

Þetta tal um sveitarstjórnarmennina er bara áróður andstæðinga laxeldis og þar er Jón Kaldal meðal fremstu manna í að bera ávirðingar á fólk án nokkurra raka. Markmiðið er að vinna gegn stuðningi við laxeldið með því að ráðast á einstaklinga sem vinna hjá fyrirtækjunum. Málflutningurinn er sá að með því séu starfsmennirnir háðir launagreiðandanum og meira og minna viljalaus verkfæri í þeirra höndum. Atlagan að Einar K. Guðfinnssyni er á enn veikari rökum reist. Maður sem er hættur í stjórnmálum, búinn að koma sér vel fyrir og farinn á eftirlaun er á engan hátt háður neinum fjárhagslega, hvorki laxeldisfyrirtækjum né öðrum.

En Jón Kaldal verður að athuga að þegar hann fer fram með þessum málflutningi að þá snúa rökin að honum sjálfum. Jón Kaldal er þá væntanlega líka útsettur fyrir því að þurfa þjóna þeim sem borga launin hans. Svo spurningin er : hver borgar launin?

Til skamms tíma var álitið að það væri IWF sjóðurinn. Nú er komið í ljós að það er ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Fyrir nokkrum dögum birti sjóðurinn ársreikninga sína frá stofnun 2017 eftir fyrirspurn Bæjarins besta sem vakti athygli á því að þeim hafði aldrei verið skilað til Ríkisendurskoðunar eins og lög áskilja. Þar kom í ljós að aðkeypt þjónusta sjóðsins frá 2017 – 2021 var samtals um 44 m.kr. Að sögn Jóns fellur fleira undir aðkeypta þjónustu en verktakagreiðslur til hans. Um er að ræða þjónustu, „frá endurskoðunarfyrirtæki, grafískum hönnuðum, fjölmiðlum (auglýsingabirtingar til dæmis hjá BB), vefhýsingu, tæknifyrirtæki og fleiri aðilum, þar á meðal mína, sem ég sinni í hlutastarfi.“

í hlutastarfi

Hér kemur fram að Jón er í aðeins í hlutastarfi. Hann rekur einkahlutafélag Forsíða ehf og tekjur þess á umræddu árabili 2017-2021 eru samtals 90 milljónir króna. Sé öll aðkeypt þjónusta IWF talin til Jóns nær hún aðeins helmingi af tekjunum. Miðað við svörin er það ekki svo heldur eitthvað minna. Sé til dæmis miðað við að 75% af aðkeypti þjónustu IWF sé af Jóni þá er það um 30 m.kr. og gefur aðeins þriðjunginn af tekjunum. Svo líklegt er miðað við svörin að um tveir þriðju tekna Jóns Kaldal sé fyrir vinnu fyrir aðra. Hverjir eru það? Miðað við málflutning Jóns í garð vestfirsku sveitarstjórnarmannanna skiptir miklu máli hverjir það eru. Er það Ingólfur Ásgeirsson, stofnandi IWF sjóðsins sem borgar honum beint þar sem tekjur sjóðsins duga engan veginn fyrir þessari útgerð? Eða er það Óttar Yngvarsson, annar umsvifamikill leigutaki í laxveiðiá svo nefnt sé annað nafn.

Jón Kaldal var spurður um þetta og svörin voru að hann seldi þjónustu sína ýmsum aðilum þar með talið íslenska náttúruverndarsjóðnum (IWF). Nánari svör voru ekki gefin um það hverjir það væru.

En Jón Kaldal bætti því við í svarinu, af því hann er að eigin mati, allt öðruvísi en þeir sveitarstjórnarmenn og fyrrv ráðherra sem hann gagnrýnir sem spillta stjórnmálamenn , alls ekki spilltur heldur hugsjónamaður:

„Ég get fullvissað þig um að sú vinna mín sem snýr að baráttunni gegn því að sjókvíaeldi á laxi fái að valda skaða á umhverfi- og lífríki Íslands er eingöngu greidd af Íslenska náttúruverndarsjóðnum. Þeir klukkutímar sem fara i það starf eru reyndar töluvert fleiri en Forsíða sendir sjóðnum reikning fyrir um hver mánaðamót. Málefnið er mikilvægt og því vinna við það ekki eftir stimpilklukku.“

Er þá ekki rétt að setja amen á eftir efninu.

-k

 

DEILA