Húshitun: ódýrust á Drangsnesi

Húshitun á Vestfjörðum á viðmiðunarhúsi er langódýrust á Drangsnesi. Þar kostar kyndingin 108.488 kr. yfir árið. Dýrast er að kynda í Bolungavík, á Flateyri og á Patreksfirði eða 209.024. Munar ríflega 100 þúsund krónum og er kostnaður hartnær tvöfalt hærri en á Drangsnesi.

Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni, á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli. Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu.

húshitun hæst á Vestfjörðum

Þegar tekið er meðaltal á einstökum landshlutum er húshitunarkostnaðurinn hæstur á Vestfjörðum 181.423 kr. á ári og lægstur á höfuðborgarsvæðinu 100.536 kr. Munar rúmum 80 þúsund krónum á kostnaði við viðmiðunarhúsið yfir árið. En munurinn er allt að þrefaldur þegar bornir eru saman einstök byggðarlög á landinu.

Húshitunarkostnaður hefur undanfarin ár verið hæstur á stöðum þar sem þarf að notast við beina rafhitun en verð fyrir húshitun með rafmagni hefur þó lækkað talsvert síðustu ár, m.a. vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði og aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði. Sú þróun hefur gert það að verkum að lægsti mögulegi kostnaður fyrir beina rafhitun er nú orðinn lægri en þar sem eru kyntar hitaveitur eða dýrar hitaveitur.

Lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er á Flúðum um 70 þ.kr. og þar næst í Brautarholti á Skeiðum og á Seltjarnarnesi um 75 þ.kr. Hæsti húshitunarkostnaðurinn er í Grímsey um 231 þ.kr., þar sem er olíukynding. Þar fyrir utan er húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign hæstur á stöðum þar sem notast er við kynta hitaveitu, þ.e.a.s. á Ísafirði, í Bolungarvík, á Seyðisfirði, Patreksfirði, Suðureyri og Flateyri eða um 209 þ.kr.

DEILA