Hornbjarg á uppboði

Hjá Bruun Rasmussen í Danmörku er málverk á uppboði eftir danska málarann Carl Locher af Hornbjargi. Verkið var málað 1907 og er dagsett 12. ágúst. Þá var Friðrik 8. Danakonungur í heimsókn á Íslandi ásamt krónprinsinum (Kristjáni X) og sýnir málverkið skip í konungsheimsókninni sigla fyrir Horn.

Carl Locher var opinber málari heimsóknarinnar. Hvít skipið er s/s Birma, skip dönsku austur Asíufélagsins. Konungsfjölskyldan dvaldi um borð í Birmu.

Í Lesbók Morgunblaðsins 4. ágúst 2007 er frásögn af konungsheimsókninni eftir Jökul Sævarsson og þar segir um Vestfjarðahluta ferðarinnar:

„Íslandsheimsókn konungs var ekki lokið þótt hann yfirgæfi Reykjavík. Á leiðinni heim til Danmerkur ætlaði hann að koma við á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði.

Konungsskipið Birma, farkostur ríkisþingmanna, Atlanta og fylgdarskipin tvö, Hekla og Geysir, tóku stefnuna á Snæfellsjökul, síðan út yfir Breiðafjörð til Vestfjarðakjálkans. Þegar komið var að Önundarfirði var ákveðið að njóta þar næðis um nóttina. Varpaði konungsflotinn síðan akkerum á góðu skipalægi fyrir framan Flateyrarkauptún. Konung langaði til að skoða þorpið og fór hann í land ásamt Hannesi Hafstein sem fylgdi konungi sem fyrr. Gengu þeir saman um þorpið og skoðuðu meðal annars minjar um hvalveiðar Norðmanna frá staðnum.

Konungsflotinn kom til Ísafjarðar fyrri part sunnudagsins 11. ágúst. Ísfirðingar komu til móts við flotann á meira en 80 bátum, nýmáluðum og tandurhreinum með fálkamerki í framstafni og danska fánann aftur á. Þar sem sumrin voru einn mesti annatími sjómanna á Íslandsmiðum þótti hinum tignu gestum sérstaklega vænt um þennan virðingarvott.

Ísfirðingar tóku konungi með kostum og kynjum. Á Ísafirði snérist allt um saltfisk og verkun hans og skoðaði konungur m.a. saltfisksverkunarstöð Ásgeirs Ásgeirssonar.“

Daginn eftir kvaddi konungur Ísafjörð og skipin brunuðu norður Grænlandshaf. Eftir að þau höfðu farið hjá Hornbjargi var stefnan tekin í austur til Eyjafjarðar og Akureyrar.

Carl Locher var fæddur í Flensburg 1851 og lést á Skagen 1915.

Málverkið er metið á 80.000 til 100.000 danskar krónur.

Tilboðsfrestur er til 6. mars.

DEILA