Hallaði ekki á Landssamband veiðifélaga

Óðinn Sigþórsson.

Ríkisendurskoðandi gagnrýnir sérstaklega starfshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem skipaður var 2016 og skilaði af sér í ágúst 2017 í skýrslu sinni um sjókvíaeldi. Segir í skýrslunni að þessi hópur hafi skorið sig nokkuð frá þeim hópum sem höfðu starfað í umboði ráðherra vegna breytinga á sömu lögum árin 2008 og 2014.Gerð er athugasemd við skipan hópsins. Í hópnum voru 6 fulltrúar. Auk þriggja fulltrúa frá þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneyti og fulltrúa frá Matís „voru tveir fulltrúar frá Landssambandi fiskeldisstöðva í hópnum, annars vegar stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og hins vegar stjórnarformaður Arnarlax. Einnig átti Landssamband veiðifélaga fulltrúa í hópnum.“ Þá er skipan starfsmanns hópsins gagnrýnd, en hann var verktaki á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. „Greint var frá því á opinberum vettvangi að viðkomandi hafi á sama tíma og nefndin var að störfum verið fastráðinn starfsmaður ráðgjafarfyrirtækis stjórnarformanns Arnarlax og að ráðuneytið hefði verið meðvitað um þau tengsl þegar hann var ráðinn þangað.“

Um niðurstöður starfshópsins segir í skýrslu Ríkisendurskoðanda: „Niðurstöður hópsins bera þess vott að mest áhersla hafi verið lögð á málefni sjókvíaelds og ljóst er að hann var m.a. skipaður aðilum sem áttu mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta varðandi framtíðarskilyrði greinarinnar sérstaklega hvað snýr að takmörkunum til sjókvíaeldis eða eignarhaldi eldisfyrirtækja.“

Fer ekki á milli mála að gagnrýni Ríkisendurskoðanda er sú að fulltrúar fiskeldisfyrirtækjanna hafi haft of mikið vægi í starfshópnum og að það komi svo fram í niðurstöðum starfshópsins.

Samkomulag um áhættumat og úthlutun leyfa

Bæjarins besta hafði samband við Óðinn Sigþórsson, sem var fulltrúi Landssambands veiðifélaga, LV, í starfshópnum og bar þessi ummæli í skýrslunni undir hann.

Óðinn sagði að ekki hefði hallað á sín sjónarmið í starfshópnum umfram aðra og bendir á að það voru fleiri í hópnum en fulltrúar LV og Landssambands fiskeldisfyrirtækja. Um niðurstöðurnar segir Óðinn að náðst hafi samkomulag um áhættumat erfðablöndunar „en þar lagði ég höfuðáherslu á að vísindamönnum var falið að gera það án afskipta starfshópsins eða hagsmunaaðila. Það gekk eftir.“ Einnig voru tillögur um reglur um aðgang að svæðum og úthlutun eldisleyfa. Óðinn bendir á í ljósi athugasemda Ríkisendurskoðanda að fyrri starfshópur 2013-2014 tók ekki á þessu og fyrirtækin gátu því haldið áfram að helga sér svæði til  eldis með því að hefja gerð umhverfismats.  Því skorti allar reglur um uppbyggingu sjókvíaeldisins þegar starfshópurinn kemur að málinu.

Tillögur starfshópsins voru að mestu leyti innihald í frumvarpi sem ráðherrann lagði fram á Alþingi 2018, en náði ekki fram að ganga. Ráðherrann gerði breytingar á því ári síðar þegar frumvarpið var lagt fram öðru sinni og varð þá að lögum, en engu að síður segir Óðinn að mikilvægar tillögur starfshópsins hafi náð fram að ganga og orðið að lögum þótt ofmælt sé að núgildandi lög byggi alfarið á niðurstöðum starfshópsins.

Gagnrýni að ósekju

Um gagnrýni á starfsmann starfshópsins segir Óðinn að hún sé að ósekju. Hann hafi unnið störf sín af fagmennsku og samviskusemi og aldrei hafi gætt hlutdrægni þar að lútandi. Svo hafi háttað til að ráðuneytið lagði starfshópnum til starfsmann í upphafi en sá varð að hætta af persónulegum ástæðum.  Þá var umræddur starfsmaður fenginn til þess að taka við. Óðinn sagði líka að af hans hálfu hefði það legið fyrir frá upphafi að ef hinn nýi starfsmaður myndi sýna það af sér að vera vilhallur í störfum sínum hefði hann samstundis orðið að hætta. Það kom aldrei tilefni til að gera athugasemdir störf hans sagði Óðinn.

Gagnrýnir vinnubrögð og spillingu

Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur segir í pistli til fjölmiðla á miðvikudaginn að nú séu komin „í hámæli þau ófaglegu vinnubrögð og spillingin sem hefur einkennt vinnuna við undirbúning og gerða laga um fiskeldi og eftir að lögin voru samþykkt.  Þar ber að þakka   matvælaráðherra og Ríkisendurskoðun.“

Valdimar hefur lengi komið að fiskeldi hér á landi og hann var formaður starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem starfaði á árunum 2013-2014 og fjallaði um leyfisveitingar og eftirlit í fiskeldi. Ríkisendurskoðandi gagnrýnir ekki þann starfshóp. í honum voru þrír, Valdimar sem formaður og fulltrúi ráðherra, einn fulltrúi Landssambands fiskeldisstöða og fulltrúi umhverfisráðherra. Ekki er getið um það í skýrslu Ríkisendurskoðunar að Valdimar vann á þessum tíma fyrir Hraðfrystihúsið Gunnvör að gerð matsáætlunar fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi og þorski í Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt þessu var Valdimar Ingi að vinna að leyfisveitingum Hraðfrystihúss Gunnvarar þegar hann stýrði og skrifaði skrifaði skýrslu nefndarinnar um leyfisveitingar í sjókvíaeldi og leggur til tilteknar lagabreytingar.  Tveir af þremur nefndarmönnum voru því frá hagsmunaaðilum.

Þá kom Valdimar einnig að samningu reglugerða fyrir Sjávarútvegsráðuneytið, samkvæmt heimildum Bæjarins besta meðal annars reglugerð nr 1175 frá 2015 sem birt var í desember 2015.

Bæjarins besta innti Valdimar eftir því hvort þetta væri ekki óheppilegt og hefði getað valdið hagsmunaárekstrum að vera báðum megin borðs. Í svörum sínum vísaði Valdimar til vefsíðu sinnar. Þar kemur fram að hann hafi unnið við m.a. lög og reglugerði fyrir ráðuneytið á þessum tíma frá 2004-2015 og fyrir umrætt fiskeldisfyrirtæki frá 2011.

-k

DEILA