Háafell: ekki þrengja að framþróun í fiskeldinu

Gauti Geirsson

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells á Ísafirði segir að Háafell hafi lagt áherslu á í athugasemdum við strandsvæðaskipulagið fyrir Vestfirði , að eldissvæði fyrirtækisins hafi tvívegis farið í gegnum umhverfismat, leyfisferli og þar með fjölmörg umsagnar og kynningarferli. Háafell hefur hafið laxeldi í Ísafjarðardjúpi. „Allt þetta ferli tók allt í allt 10 ár og því hefur framkvæmdin verið vel kynnt. Eldissvæði Háafells uppfylla skilyrði um burðarþolsmat, áhættumat og fjarlægðarmörk og er tillaga svæðisráðs í samræmi við það og svæðin inní skipulaginu, þar á meðal eldissvæði okkar í Vigurál.“

Meiri umræði þarf um tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands

Gauti nefnir tillögur sem fram komu í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við strandsvæðaskipulagið fyrir Vestfirði, sem svæðisráð hefur afgreitt og nú eru á borði Innviðaráðherra. Þar var lagt til og svæðisráð tók upp að miklu leyti, að setja svæði er varða fugla,seli og fjöruvistgerðir í nýtingarflokkinn umhverfi og náttúra, en þar er ekki gert ráð fyrir fiskeldi, efnistöku, skeldýrarækt o.fl.

„Við bentum á að í skipulaginu mætti ekki þrengja möguleika um of varðandi framþróun og breytingar í greininni. Til dæmis eru tillögur Náttúrurfræðistofnunar Íslands, NÍ, sem voru að miklu leyti teknar upp í skipulaginu með þann útgangspunkt að loka eða takmarka að miklu leyti framtíðarnýtingu í innfjörðunum, byggðar á frekar veikum grunni. Að okkar mati þarf að fara fram miklu betri umræða um þær tillögur sem hafa ekki farið í gegnum formlegt ferli.“

DEILA