Gat á sjókví í Ísafjarðardjúpi

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Matvælastofnun barst tilkynning frá Háafelli í dag mánudaginn 27. febrúar um gat á netapoka einnar sjókvíar Háafells við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi.

Gatið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit á kví C5 og er bráðabirgðaviðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Háafells er gatið um 9 cm á lengd og 3,4 cm á breidd 10 m dýpi. Í þessari tilteknu kví voru 115.255 laxaseiði sem sett voru í kvína 5. október 2022. Seiðin eru um 500g að þyngd að meðaltali. Neðansjávareftirlit var áður framkvæmt um miðjan janúar sl. og var netapoki þá heill.

Matvælastofnun hefur fyrirskipað köfun í allar kvíar á eldissvæðinu sem um ræðir til að tryggja að ekki séu fleiri göt á öðrum kvíum. Háafell leggur út net á eldissvæðinu í samráði við Fiskistofu.

Háafell telur litlar líkur á sleppingu þar sem rifan er ekki stór en segir í tilkynningu að engu að síður hafi verið sett í gang viðbrögð í samræmi við viðbragðsáætlun fyrirtækisins. MAST og Fiskistofu var gert viðvart um leið, rifunni lokað og net sett út við hlið kvíarinnar til þess að fanga mögulega strokufiska. „Fyrsta skoðun á fóðurnotkun í kvínni gefur ekki tilefni til að áætla stóra sleppingu, þvert á móti hefur fóðurnotkun í hverri kví hvergi verið meiri en í C5 síðan um miðjan janúar þegar síðasta eftirlit fór fram. Háafell notast við sjálfvirkt myndavélakerfi við fóðurgjöf og stýrir það fóðrun eftir áti, ef það væru færri fiskar í kvínni hefði fóðurnotkun átt að minnka. Háafell er umhugað um rétt viðbrögð við mögulegum slysasleppingum. Í umhverfismati voru útlistaðar aðgerðir til þess að bregðast við og hafa allar þær aðgerðir sem eru á vegum fyrirtækisins verið virkjaðar. Þar eru ennfremur aðgerðir til þess að takmarka áhrif ef ástæða þykir til í samráði við stjórnvöld. Í Laugardalsá og Langadalsá eru myndavélar sem taka myndir af öllum fiskum sem ganga uppí árnar og því góðar aðstæður til frekari vöktunar.“

DEILA