Fyrirtækjum hyglað með frestun laga

Nýverið kom út skýrsla ríkisendurskoðanda um stjórnsýslu í fiskeldi hér á landi. Skýrslunni var meðal annars ætlað að gefa færi á umræðu og gagnrýni um það hvernig stjórnvöld hafa staðið að undirbúningi laga um greinina, framkvæmd þeirra og skipulagi eftirlits. Í skýrslunni eru þarfar ábendingar og hafa ýmsir haldið efni hennar á lofti að undanförnu. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, skrifar grein í Morgunblaðið 18. febrúar s.l. og segir m.a.: „Það sem er ógagnlegt er þegar umræðan í samfélaginu verður óreiðukennd á kostnað staðreynda. Á þessu hefur borið í umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar.“

Margt hefur komið fram í umræðu og fjölmiðlum síðustu daga og er það mat mitt að margt af því sé á einhvern hátt villandi. Vil ég því leitast við að varpa skýrara ljósi á einn þátt er varðar grafalvarlegar brotalamir og mismunun við setningu laga um fiskeldi um miðbik árs 2019.  

Héraðssaksóknari rannsakar ekki til hlítar

Komið hefur fram að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið fór fram á að Lögbirtingarblaðið frestaði birtingu ofangreindra laga nr. 101/2019. Sú frestun kom einstökum fyrirtækjum til góða.  

Bent hefur verið á það sem rök fyrir frestun að starfsmenn ráðuneytisins hafi borið fyrir sig ótta um að ríkið gæti kallað yfir sig skaðabótaábyrgð með því að heimila ekki þeim fyrirtækjum, sem höfðu  hafið undirbúning að gerð frummatsskýrslu, að ljúka þeirri vinnu og koma skýrslunni inn fyrir birtingu laganna. Einnig er því haldið fram að beiðni um frest hafi aðeins verið fyrir 3-4 daga. 

Héraðssaksóknara var síðar falið að rannsaka málið (að beiðni ráðuneytisins). Hann taldi að frekari rannsókn á málinu myndi ekki líkleg til að sýna fram á sekt þess starfsmanns sem kom beiðninni á framfæri eða myndi upplýsa málið frekar. Einnig komst hann að þeirri niðurstöðu að ekki fengist séð að athafnir starfmannsins, að biðja um frest á birtingu laganna, hafi hallað réttindum einstakra manna, lögaðila eða hins opinbera. Með öðrum orðum fæ ég ekki séð annað en að héraðssaksóknari sé að halda því fram að enginn hafi haft sýnilegan hag af þessari frestun!

Það hlýtur að hvarfla að manni að héraðssaksóknari hafi ekki farið nægjanlega ítarlega í saumana á þessu máli til að ganga úr skugga um áhrif frestunarinnar og hver hafi verið raunveruleg ástæða þeirrar beiðni.

Í nýrri skýrslu ríkisendurskoðanda segir um þennan frest: „Ásýndin var sú að tiltekin fyrirtæki hefðu fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgðaákvæði laganna og þar með tryggt að umsóknir þeirra um rekstrarleyfi þyrftu ekki að sæta málsmeðferð í samræmi við ný ákvæði laganna.“

Borið hefur á því að þetta misræmi milli álits héraðssaksóknara og ríkisendurskoðanda hafi gefið tilefni til þeirrar ályktunar að niðurstaða héraðssaksóknara yfirskyggi álit ríkisendurskoðanda. Það stenst ekki skoðun að mínu mati.

Tiltekin fyrirtæki nutu góðs af frestun

En víkjum þá að afleiðingum frestunarinnar. Þeir alþingismenn, sem samþykktu hin nýju lög árið 2019, áttu að hafa verið meðvitaðir um það ójafnræði sem skapaðist, einkum þeir þingmenn atvinnuveganefndar sem stóðu meðal annarra að gerð lagafrumvarpsins. Þeir áttu þátt í því að samþykkja lögin ásamt þorra alþingismanna. Við inngrip ráðuneytisins gerðist það hinsvegar að markmiði Alþingis um myndun tiltekinnar markalínu var kastað fyrir róða. Með öðrum orðum má halda því fram að lögum hafi verið breytt af ráðuneytinu. Fullyrðing ríkisendurskoðanda, um að jafnræði hafi skort af hálfu stjórnvalda og einstök fyrirtæki hafi notið góðs af frestun á birtingu laganna, er því á rökum reist. 

Sannleikurinn er sá að tiltekin fyrirtæki nutu góðs af ráðagerð ráðuneytisins. Það er augljóst og er á vitorði flestra í greininni og í stjórnkerfinu, þeirra á meðal alþingismanna og ráðherra.

Hvort fresturinn sem ráðuneytið bað um var 3-4 dagar eða lengri (sem líklegt er) skiptir ekki máli. Kjarninn er sá að tiltekin fyrirtæki náðu, með mjög mikilli fyrirhöfn, að koma frummatsskýrslum sínum á framfæri innan þess frests sem veittur var í þeim tilgangi. Hin mikla fyrirhöfn var því sannarlega þess virði. Önnur fyrirtæki vissu ekki af frestinum og gátu því ekki brugðist við.

Ráðuneyti hlutast til um frestun laga

Það sem gerir þetta mál grafalvarlegt er að ráðuneytið skuli hafa hlutast til um að leggja fram beiðni um frestun á gildistöku laga. Og það skuli hafa verið gert á þann veg að lög, sem með öðru áttu að mynda tiltekinn skurðpunkt um það hvort fyrirtæki væru sett undir gömlu eða nýju lögin, væru aðlöguð að vilja ráðuneytisins. Hversu alvarlegt er það?  Mér er ekki kunnugt um að atvinnuveganefnd eða forseti Alþingis hafi gert athugasemd við þennan gjörning ráðuneytisins. Víst er að þessar óvæntu vendingar atvinnuveganefndar og gjörningur ráðuneytisins höfðu áhrif á fyrirtæki það sem ég var í forsvari fyrir. Vegna niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála tveimur árum síðar er þó ekki séð fyrir enda þess og skiptir í raun ekki máli í umfjöllunarefni þessarar greinar.

Það er ljóst að héraðssaksóknari hefur ekki fylgt þessu máli eftir alla leið, ekki skoðað forsendur nægjanlega vel og þar af leiðandi stöðvað rannsóknina of snemma. Það ber þó að hafa í huga að hann virðist fyrst og fremst hafa haft það hlutverk að rannsaka aðkomu eins einstaklings að málinu. Það breytir því ekki að beiðnin um frest kom sannarlega frá þessu ráðuneyti og áhrifin ber að skoða í ljósi þess. Hvað varðar aðkomu þessa einstaklings að málinu, þá hljóta að vakna spurningar um það hver var aðdragandi og orsök þessarar beiðni og hvort hann tók þetta upp hjá sjálfum sér eða ekki? 

Í nýlegum dómi sem kemur til af kæru starfsmannsins á hendur ráðuneytinu vegna þess að starfi hans var breytt, þá kemur þessi frestbeiðni til umfjöllunar. Þar er sagt að ráðuneytið telji að starfsmanninum hefði mátt vera ljóst að frestbeiðni á lagabirtingunni hefði meiriháttar þýðingu fyrir stjórnsýslu ráðuneytisins. Honum hefði átt að vera ljóst að rétt hefði verið að bera slíkt undir ráðherra eða ráðuneytisstjóra. Er þetta ekki enn frekar til marks um það að í fyrrgreindri rannsókn hefði héraðssaksóknari mátt fylgja þessu máli fastar eftir, og rannsaka betur hagsmunatengsl?

Hugtakið opinber rannsókn hefur nokkuð skotið upp kollinum nú hin síðari ár. Ég telst seint óhlutdrægur í þessu alvarlega máli en það er mín skoðun að ef eitthvert mál úr stjórnsýslu Íslands kallar á opinbera rannsókn þá er það aðdragandi, setning og framkvæmd laga um fiskeldi frá árinu 2019. Þar er af fleiru að taka en því sem nefnt er í þessari grein.

Gísli Jón Hjaltason,

fyrrverandi stjórnarformaður Hábrúnar hf.

DEILA