Fyrir hvern setur þú upp kolluna?

Nú stendur yfir fjáröflunar- og árvekniátak Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Markmið átaksins er að selja nýjar Lífið er núna húfur og vekja athygli á þeim áskorunum sem verða á vegi fyrir þau sem greinast með krabbamein sem og aðstandendum og hvernig Kraftur getur stutt við þau með hjálp almennings og fyrirtækja í landinu.

Um 70 ungir einstaklingar greinast á ári hverju og hefur það bæði áhrif á þau greindu sem og fjölskyldur og ástvini þeirra. Átakið stendur til 20. febrúar.

„Fyrir hvern setur þú upp kolluna er yfirskrift átaksins í ár og vísar til þess að oft á tíðum missir fólk hárið í krabbameinsmeðferð og sumir velja að setja upp hárkollu. Við getum sýnt samstöðu með því að setja upp Lífið er núna kolluna sem er líka annað heiti yfir húfu og vekja þannig athygli á málefnum ungs fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum,“ segir Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Krafts. Sem fyrr verður slagorð Krafts  „Lífið er núna“ í hávegum haft og munum við hvetja fólk til að sýna Krafti og félagsmönnum stuðning í verki með húfukaupum.

Kraftur hvetur svo landsmenn alla að halda upp á Lífið er núna daginn fimmtudaginn 9. febrúar. Skarta þá einhverju appelsínugulu, staldra við og njóta líðandi stundar með fólkinu í kringum sig. Fyrirtæki, skólar, félagasamtök, vinir og vandamenn eru öll hvött til að taka höndum saman og njóta dagsins saman til hins ýtrasta. 

Húfurnar eru til sölu í vefverslun Krafts á www.lifidernuna.is sem og í völdum verslunum Krónunnar og Hagkaup, Karakter í Smáralind og Companys Kringlunni. Húfurnar kosta 4.900 krónur og rennur allur ágóði af þeim í starfsemi Krafts og í að styðja þar með við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.

Hulda og Margrét.

DEILA