Framsókn með fund á Ísafirði

    Halla Signý og Þórarinn á fundinum á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

    Framsóknarflokkurinn efndi til opins fundar á Ísafirði á miðvikudaginn. Þingmennirnir Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Pétursson höfðu framsögu og fóru yfir ýmis mál svo sem samgöngumál, strandveiðar, efnahagsmálin og fiskeldi. Ásmundur Einar Daðason, ráðherra var einnig auglýstur á fundinn en breytti ferðaplönum sínum og var um kvöldið staddur á Patreksfirði.

    Fundarmenn báru fram ýmsar fyrirspurnir og settu fram sjónarmið á margvíslegum málum. Einna mest var rætt um heilbrigðismál og kom fram nokkur gagnrýni á skort á nauðsynlegri fæðingarþjónustu heima í héraði, sálfræðisþjónustu og fjarlækningar auk kostnaðar við að sækja heilbrigðisþjónustu suður.

    Þá bar á góma samgöngumál og þá sérstaklega hægagang í jarðgangagerð og settar voru fram áhyggjur af skorti á raforku í fjórðungnum og hvatt til virkjunar.

    DEILA