Barist við vindmyllur

Allnokkur orðræða hefur átt sér stað á undanförnum misserum um eldi á laxfiskum í sjó í kjölfar hraðrar og mikillar uppbyggingar þess. Einn angi hennar hefur hverfst um hugsanlega hættu á blöndun erfðaefnis á milli fisks úr sjókvíum og þess náttúrulega er syndir frjáls um heimsins höf. Ljóst er að þeir sem telja til hagsmuna í þessum efnum eru á öndverðum meiði og takast sköruglega á með lipurlegum orðahnyppingum. Frjáls skoðanaskipti eru alla jafna af hinu góða, en þegar fullyrðingar um flókin vísindaleg viðfangsefni eru úr lausu lofti gripnar er rétt að stemma stigu við slíku.

Erfðablöndun fiska líkt og annarra lífvera er náttúrulegt ferli sem frá öndverðu hefur stuðlað að fjölbreytni lífríkisins og er þ.a.l. forsenda þróunar lífs í breyttum aðstæðum og ólíku umhverfi. Hún er í sjálfu sér ekki til skaða upp að ákveðnu marki því nýtt erfðaupplegg blandaðs stofns er einskis virði ef það aðlagast ekki sínu vistkerfi. Í gegnum þróunarsöguna hafa stofnar fiska blandast saman og til hafa orðið nýir stofnar sem betur eru til þess lagaðir að lifa af og er þessi þróun m.a. í fullum gangi núna með aukinni hlýnun sjávar og súrnum.

Hvað áhrærir þann stofn sem notaður er í laxeldi hérlendis og hugsanlega áhrif tímgunar hans vegna æxlunar við frjálsa stofna sem finnast víðs vegar við ár og í þeim, – þá eru upplýsingar um slíkt af það skornum skammti að beinharðar staðreyndir þar um liggja ekki fyrir. Nýlegar rannsóknir sem taka á þessari spurningu og fengnar eru erlendis frá benda til þess að hætta á genaflæði á milli þessara stofna fiska sé til staðar en óveruleg og skaðlítil. Í ljós hefur komið að mesta flæði gena er á milli eldisstofnanna sjálfra annars vegar og hins vegar á milli eldislaxa áa þ.e. stofna úr ræktuðum ám. Í þeim tilfellum þar sem villt hrygna hefur sýnt eldishæng ástaratlot sem leitt hafa til afkvæma þá hafa þeir einstaklingar sýnt lítinn og áhrifalausan breytileika í þeirri kynslóð. Hafa ber í huga að þetta eru niðurstöður erlendrar rannsóknar á viðfangsefninu en útkoman gæti allt eins verið þveröfug hér heima.

Að mínu mati er afar mikilvægt í ljósi víðtækra hagsmuna margra aðila að fram fari víðfeðm rannsókn á samspili laxfiska í eldi og þeirra sem lifa frjálsir í íslenskri náttúru m.t.t. erfðablöndunar. Einnig þyrfti að kanna ítarlega hugsanlega erfðablöndun á milli ólíkra stofna laxa úr eldisám og hvort ákvörðun landbúnaðarráðherra frá 2004 um lokuð svæði fyrir laxeldi hafi verið nægilega gaumgæfð.

Ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem hugsa hlýlega til lífríkisins og af ákefð láta sig varða ástarlíf laxfiska, en jafnframt met ég mikils framtakssemi þeirra sem vilja nýta möguleika sjávarins til hagsældar og fæðuöryggis. Nýting auðlinda er þó ávallt vandmeðfarin og verður að byggjast á fjórum stoðum sjálfbærninnar, fjölmörg víti eru til varnaðar í þeim efnum.

Jóhannes Aðalbjörnsson

Sjávarútvegsfræðingur

Suðureyri

DEILA