Baldur: seinni ferðin í dag fellur niður

Vegna veðurs fellur niður seinni ferð Baldurs í dag, föstudaginn 3. febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sæferðum ehf.

Af færð á vegum er það að frétta að búið er að opna Steingrímsfjarðarheiði, en þar er mikill krapi og hálka og einbreitt á köflum. Flughált er í Staðardal.

Dynjandisheiði er opin en þar sem þæfingur og einbreitt á köflum og enn er unnið að mokstri.

Flughált er milli Klettháls og Flókalundar svo og á Innstrandarvegi í Steingrímsfirði. Í Djúpinu er þæfingur í Ísafirði en annars snjóþekja og hálka.

Gul viðvörun er á Vestfjörðum og Veðurstofan spáir suðaustan, og síðar suðvestan, 18-25 m/s. Snarpar vindhviður við fjöll, sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur, sérstaklega ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

DEILA