Vesturbyggð: óbreyttar sérreglur um úthlutun byggðakvóta

Brjánslækur. Mynd: ismennt.is

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti samhljóða á þriðjudaginn að hafa sömu sérreglur um úthlutun byggðakvóta á yfirtandandi fiskveiðiári 2022/23 og giltu á því síðasta.

Byggðakvótinn skal skiptast hlutfallslega milli fiskiskipa sem eru skráð í sveitarfélaginu miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Þá verður fiskiskipum skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2022 til 31. ágúst 2023.

Til úthlutunar er að þessu sinni 85 tonn mælt í þorskígildum, sem er sama magn og áður. Byggðakvótinn skiptist milli þriggja byggðarlaga innan Vesturbyggðar, þannig að 55 tonn fara til Bíldudals, 15 tonn eru merkt Brjánslæk og önnur 15 tonn tilheyra Patreksfirði.

Á síðasta ári mótmæltu fimm útgerðir í gamla Barðastrandarhreppi löndunarskyldunni til vinnslu í sveitarfélaginu og sögðu í bréfi til hafna- og atvinnuráðs Vesturbyggðar að skilyrðið hefði komið í veg fyrir að íbúar og eigendur smábáta þessa gamla byggðalags gætu nýtt sér byggðakvóta Brjánslækjar sem hefði fallið niður. Ekki varð orðið við erindi þeirra.

Ekki er getið um sambærileg erindi að þessu sinni.

DEILA