Vestfirðir: nokkur krapaflóð féllu í gær

Frá flóðinu á Patreksfirði í gær. Mynd: Veðurstofa Íslands.

Krapaflóð féllu á nokkrum stöðum á Vestfjörðum í gær. Ekki er vitað um umtalsvert tjón af völdum þeirra. Á Patreksfirði féll flóð úr Geirseyrargili sem virðist hafa skemmt götu og gangstétt og valdið lítilsháttar skemmdum á einu húsi. Um tíma var hættuástandi lýst yfir. Fyrir fjörtíu árum féll úr sama gili mannskætt flóð og frá þeim tíma hafa ekki verið gerðar varnir fyrir endurteknum flóðum.

Á Bíldudal féllu tvö krapaflóð, annað úr Búðargili og hitt úr Gilsbakkagili en Veðurstofan getur ekki um neitt tjón af þeirra völdum. Þá féll flóð í Ketildölum fjarri byggð.

Loks er vitað um krapaflóð úr Traðargili í Hnífsdal sem sagt var frá á vef Bæjarins besta í gær en ekki virðist hafa orðið tjón af þess völdum.

Veðurstofan gerði í gær ráð fyrir að það myndi draga úr úrkomu með deginum og kólna með minnkandi hættu.

Í gærkvöldi var gul veðurviðvörum fyrir Vestfirði með suðvestan 15-23 m/s og éli með lélegu skyggni. Varasamar akstursaðstæður geta skapast, einkum á fjallvegum. segir í viðvöruninni.

Í spá um snjóflóðahættu fyrir norðanverða Vestfirði segir fyrir fötudaginn að nokkur hætta sé á snjóflóðum. „Næstu daga er von á snjókomu eða slyddu í suðlægum áttum en norðaustlægri átt á sunnudag. Flekar gætu myndast hlémegin.“ Tekið er fram að spáin þurfi ekki að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð.

DEILA