Þrúðheimar: vongóð um samkomulag

Karen Gísladóttir forsvarsmaður Þrúðheima ehf, sem kærðu til Innanríkisráðuneytisins samning Ísafjarðarbæjar við Ísófit ehf, segir að hún hafi í haust hitt Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra og það hafi verið ágætur fundur. Af beggja hálfu væri vilji til þess að finna farsæla lausn á deilumálinu og kvaðst hún vongóð um að málið leysist á næstu vikum en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um efni viðræðnanna.

Þrúðheimar ehf, sem rak líkamsræktarstöð í húsnæði Studió Dan, átti á árinu 2020 í viðræðum við Ísafjarðarbæ um rekstur líkamsræktarstöðvar líkt og Ísófit ehf. Þeim lauk með samningi bæjarins við Ísófit ehf. þar sem greiddar eru 400 þúsund kr. á mánuði í 3 ár til rekstursins. Karen sagði það hafa verið augljóst að bærinn hafi ekki staðið rétt að samningsgerðinni og því hefði verið kært til Innanríkisráðuneytisins. Úrskurður þess var að styrkveiting bæjarins væri ólögmæt þar sem ákvörðun Ísafjarðarbæjar hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og lögmætisreglu.

Ísafjarðarbæ hefur farið fram á að úrskurðurinn verði tekin upp, en hefur ekki sent ráðuneytinu rökstuðning sinn fyrir þeirri kröfu.

DEILA