Þorskur: 30% hækkun á verðmæti hvers kg á 13 árum

Verðmæti hvers útflutts kílós af þorskafurðum jukust um 55% frá 2009 til ársins 2021 samkvæmt útreikningum samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í nýjasta fréttabréfi samtakanna kemur fram að árið 2009 hafi verðmætið verið 606 kr/kg en 921kr/kg árið 2021 reiknað á föstu gengi ársins 2021. Að raunvirði, þar sem miðað er við verðbólgu í iðnríkjum, var það hátt í 30% hærra en árið 2009.

Næstu daga verða tölur fyrir 2022 tiltækar, en árið 2021 voru flutt út 141 þúsund tonn af þorskafurðum fyrir 132 milljarða króna. Magnið hefur ekki verið meira á þessu árabili frá 2009 og sveiflast frá 95 þúsund tonn. Verðmætið sveiflast einnig eftir magninu og var minnst 66 milljarðar króna árin 2009 og 2010 og mest árið 2021 , 132 milljarðar króna eins og fyrr segir. Útflutningsverðmætið af þorskafurðum hefur því tvöfaldast á 13 ára tímabili þótt magnið hafi aðeins aukist um tæp 50%.

Í fréttabréfinu er vakin athygli á því að fjárfesting í greininni skipti sköpum í því að auka verðmætið. „Vinnsla hefur orðið sífellt flóknari og stöðugt meira er framleitt af ferskum afurðum, enda hefur spurn eftir þeim stóraukist. Til þess að mæta þessum áskorunum hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fjárfest í nýjum skipum og búnaði um borð, hátæknibúnaði fyrir vinnslu og nýsköpun og vöruþróun. Þessir þættir snúa allir að því að auka ferskleika, gæði og nýtingu og hafa því gengt lykilhlutverki við að skapa meiri verðmæti úr auðlindinni.“

Kerecis 20 milljarðar kr.

Þá segir að fjölmörg fyrirtæki í nýsköpun hafi búið til aukin verðmæti úr svo kölluðum hliðarafurðum úr þorskinum, sem hér áður fyrr var hent. Nefnt er sem dæmi fyrirtækið Kerecis sem gerir ráð fyrir að velta um 20 milljörðum króna á þessu ári. Það framleiðir svokallað sáraroð úr þorskroði. Á fréttinni er að skilja að það séu verðmæti sem ekki eru talin með í útreikningunum að ofan.

DEILA