Tegundatilfærsla botnfiskheimilda stöðvuð í deilistofnum

Gullkarfi

Matvælaráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp sem ætlað er til þess að afnema heimildir til þess að beita tegundatilfærslum gagnvart heimildum í gullkarfa og grálúðu, sem eru svonefndir deilistofnar, þ.e. fiskistofnar sem íslendingar deila nýtingu á með öðrum þjóðum.

Með tegundatilfærslu er átt við reglu sem heimilar að afli í einni tegund dragist að ákveðnu marki frá aflaheimildum skips í annarri tegund. Vegna möguleikans á tegundatilfærslu í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu hafa Íslendingar veitt töluvert umfram samningsbundinn hlut sinn úr gullkarfastofninum síðustu ár, samkvæmt tvíhliða samningi við Grænland með því að breyta veiðiheimild í einhverri botnfisktegund yfir í gullkarfa. Heildarveiði úr gullkarfastofninum hefur því verið umfram heildaraflamark og ráðgjöf. Í greinargerð ráðherra segir að ef ekkert verði aðhafst eykst uppsafnaður umframafli Íslands í gullkarfa frá ári til árs og þar með afli umfram ráðgjöf, sem er ekki í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Umframaflinn fer að auki í bága við samning Íslands og Grænlands um deilistofna og að óbreyttu eru líkur til að Grænland rifti þeim samningi. Umræddri breytingu er einnig ætlað að hafa áhrif á samningaviðræður um aðra deilistofna og bæta stöðu Íslands við samningaborð við erlend ríki.

Vegna tegunda-tilfærslu hefur hins vegar heildarafli grálúðu verið minni en sem svarar samningsbundnum hlut Íslands en sama stað gæti hæglega komið upp síðar og nú er varðandi gullkarfann.

Samandregið segir að breytingunum sé ætlað að tryggja að veiðar á gullkarfa og grálúðu séu í samræmi við útgefið aflamark og vísindaráðgjöf og því stuðla að sjálfbærri nýtingu þessara fiskistofna. Mikilvægt er talið að Ísland standi við samningsbundnar skuldbindingar sínar um skiptingu aflamagns í deilistofnum við aðrar þjóðir og þær breytingar sem hér eru lagðar til munu sporna við kerfisbundinni ofveiði gullkarfa og grálúðu ef svo ber undir.

DEILA