Tálknafjörður: 4 sveitarstjórnarmenn af 5 vanhæfir

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps afgreiddi í síðustu viku hugmyndir sínar um sérreglur um úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins. Sá einstæði atburður varð að fjórir af fimm sveitarstjórnarmönnum voru vanhæfir til þess að ræða og afgreiða málið og viku af fundi. Það voru Lilja Magnúsdóttir, Jenný Lára Magnadóttir, Guðlaugur Jónsson og Jón Ingi Jónsson. Aðeins einn sveitarstjórnarmaður sat eftir, Jóhann Örn Hreiðarsson varaoddviti. Tveir varamenn Magnús
Óskar Hálfdánsson og Jónas Snæbjörnsson tóku sæti á fundinum, en tveir aðrir varamenn töldust einnig vanhæfir og voru ekki kallaðir til. Fimmti og síðasti varamaðurinn var fjarstaddur og komst ekki til fundarins. Voru því aðeins þrír fulltrúar á fundinum undir þesum dagskrárlið. Þeir urðu hins vegar sammála um afgreiðslu málsins og tókst því að afgreiða það.

Niðurstaðan sveitarstjórnar varð sú sama og í fyrra. Hún vill að byggðakvótanum verði úthlutað til báta sem skráðir eru í sveitarfélaginu. Helmingur kvótans skiptist jafnt milli þeirra og hinn helmingurinn skiptist skv. lönduðuð afla hvers báts á síðasta fiskveiðiári. Þá vill sveitarstjórnin að aflanum verði landað í Tálknafjarðarhöfn en að vinnsluskylda verði afnumin þar sem engin fiskvinnsla er í sveitarfélaginu og heimilt verði að selja aflann á markaði.

Á síðasta fiskveiðiári hafnaði ráðuneytið kröfunni um afnám vinnsluskyldunnar og vísaði til þess að vinnsla væri í Vestur Barðarstrandarsýslu, svo sem á Patreksfirði og urðu bátar frá Tálknafirði sem fengu byggðakvóta að gera samning við vinnslu á svæðinu og landa aflanum til vinnslu þar.

DEILA