Svæðisráð: fiskeldi verður leyft í Trostansfirði

Trostansfjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Svæðisráð um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði hefur gert breytingu á tillögu sinni um svæðisskipulag varðandi Trostansfjörð. Í upphaflegri tillögu svæðisráðsins var ekki gert ráð fyrir því að fiskeldið væri heimilt í firðinum og var það í samræmi við ákvörðun Matvælastofnunar. Hins vegar felldi úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi með úrskurði þann 19. október 2022.

Rekstraraðilinn sem er Arctic Fish hefur óskað eftir endurskoðun á ákvörðun Matvælastofnunar vegna kynslóðaskipts eldis í sjókvíum í Trostansfirði og hefur stofnunin hafið rannsókn á málinu.

Félagið óskar eftir því að reit undir fiskeldi verði bætt við í Trostansfirði á þeim stað sem félagið hefur sótt um. Í rökstuðningi segir : „Ef nýta á allt burðarþol Arnarfjarðar er mikilvægt að skipuleggja frekari svæði undir eldi í Arnarfirði en nú er gert ráð fyrir í skipulaginu.“

Matvælastofnun óskaði því eftir að tekið verði mið af þessu þegar strandsvæðisskipulag verður gefið út.

Nýjum reit til staðbundinnar nýtingar við Trostansfjörð verður bætt við uppdráttinn af svæðisskipulaginu.
Lýsing á reitnum verður þessi: Á skipulagsreitnum er leyfi til fiskeldis. Samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunar um veiðar á árunum 2015-2019 hafa litlar veiðar verið stundaðar innan reitsins.

DEILA