Sundahöfn: leitað að stað fyrir 200.000 rúmmetra efnis

Frá framkvæmdum við Sundabakka. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Áætlað er að 500.000 rúmmetrar af efni verði dælt upp úr sjó í Sundahöfn við dýpkun hafnarinnar sem nú stendur yfir og lokið á að vera við fyrir sumarið. Af því fara 100 – 150 þúsund rúmmetrar í landfyllingu á Langeyri í Álftarfirði og annað eins í landmótun á Suðurtanga. Eftir standa þá um 200 þúsund rúmmetrar af efni. Fyrirhugað var að setja það í Fjarðarstræti í landfyllingu en ljóst þykir að af því verði ekki að þessu sinni.

Er því leitað að hentugum stað fyrir umframefnið og fyrir bæjarráð var lagt á mánudaginn minnisblað skipulagsfulltrúa, og sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs þar sem nefndir eru valkostir á Suðurtanga. Annars vegar 11.500 fermetra svæði og hins vegar 6.400 fermetra svæði á svipuðum stað sem gæti verið hluti af framkvæmd við Sundahöfn. Segir í minnisblaðinu að ljóst sé að ekki meira en 100 þúsund rúmmetrar fari í fyrri kostinn og að efnið muni ekki sitja án fyrirstöðugarðs.

DEILA