Suðurtangi: samþykkt að endurskoða deiliskipulag

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að endurskoða deiliskipulag á Suðurtanga, íbúðar og þjónustusvæði sem samþykkt var 5. nóvember 2015. Jafnframt var samþykkt tillaga  skipulags- og mannvirkjanefndar að íbúðarbyggð verði látin víkja fyrir léttum iðnaði og safnasvæði og útivist verði gefið meira rými í skipulaginu.

Í samþykktinni er ekki vikið að umsókn Skipanaust ehf um nýjan lóðarleigusamning fyrir Suðurtanga 6 en skipulags- og mannvirkjanefnd lagði til í nóvember 2022 að gerður yrði 10 ára lóðarleigusamningur. Sú tillaga var ekki tekin til afgreiðslu.

Í minnisblaði umhverfis- og eignasviðs um málið segir að um sé að ræða lóðirnar Suðurtangi 6 (naustið), Suðurtangi 8 (dráttarbraut), og Suðurtangi 7 og tilheyrðu lóðirnar og fasteignir á þeim Skipasmíðastöð Marzellíusar en eru nú í eigu þriggja lögaðila; Skipanaust ehf. á Suðurtanga 8 og Suðurtangi 7 er í jafnri eigu Rörás ehf. og Tanga ehf. Upprunalega voru allar lóðirnar ein og hin sama en með yfirlýsingu frá árinu 1983 var lóðunum skipt upp en að öðru leyti giltu áfram
ákvæði lóðarleigusamnings frá árinu 1960.

Ísafjarðarbær seldi Skipanausti dráttarbrautina árið 2012 og samhliða var gerður lóðarleigusamningur fyrir Suðurtanga 8 sem hefur ekki verið þinglýst. Með þinglýsingu á samningnum fellur úr gildi eldri samningur frá 1960. Fram kemur í minnisblaðinu að lóðarleigusamningurinn frá 1960 hafi verið með gildistíma í 55 ár frá 1. janúar 1961 og rann því út 1. janúar 2016. Engin ákvæði eru í samningnum um hvað taki við að loknum leigutíma og engin kvöð á leigusala að kaupa upp mannvirki á lóðunum semjist ekki um áframhaldandi leigu.

Það er niðurstaðan í minnisblaðinu að það hvíli sú skylda á Ísafjarðarbæ að taka ákvörðun um það hvort gefnir verði út
lóðarleigusamningar fari lóðarhafar fram á það og að sveitarfélaginu sé ekki stætt á því að fresta því þar sem lands-réttindi eru grundvöllur eignarréttinda á fasteignunum á Suðurtanga 6 og 7.

„Hins vegar ætti Ísafjarðarbæ vera í lófa lagið að gefa út lóðarleigusamninga með takmarkaðri réttindum, bæði hvað varðar tímalengd og stærð lóða, en var í fyrri samningnum og almennt tíðkast lóðarleigusamningnum iðnaðarlóða og hægt að vísa til skipulagsraka ef það liggur fyrir vilji bæjarstjórnar að endurskoða deiliskipulag á Suðurtanga. Þegar endurskoðað deiliskipulag liggur fyrir er hægt að gefa út nýja lóðarleigusamninga byggða á því deiliskipulagi.“

DEILA