Suðureyri: samkomuhúsið ekki með gilt starfsleyfi

Gestir Act alone fylltu Félagsheimilið Súgandafirði öll kvöldin sumarið 2019.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemdir við fyrirhugað Góublót á Suðureyri í næsta mánuði með leyfi til áfengissölu en gerir þa´athugasemd að samkomuhúsið, þar sem blótið á að fara fram, er ekki með gilt starfsleyfi. Bæjarráðið beinir þeim tilmælum til rekstraraðila samkomuhússins að sækja um starfsleyfi.

Embætti sýslumannsins á Vestfjörðum veitir leyfi til sölu áfengis og aflar umsagnar sveitarfélagsins áður en erindið er afgreitt. Fyrirhugað er að halda blótið í Félagsheimili Súgfirðinga.

Óðinn Gestsson er einn þeirra sem stendur að Góublótinu. Hann segir að unnið sé að því að fá leyfið og telur að það verði í höfn tímanlega. Vel gangi að uppfylla skilyrði leyfisins. Líklega hafi starfsleyfið fyrir mistök verið látið renna út, sem gerðist á covid tímanum.

Góðublótið verður haldið 18. febrúar. Á Suðureyri standa konur að þorrablóti og karlar að Góublóti.

DEILA