Súðavíkurhreppur óæskilegt sveitarfélag í flóru sveitarfélaga

Í nýárskveðju Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra í Súðavíkurhreppi er farið yfir liðið ár og vikið að ýmsum málum sem varða íbúa sveitarfélagsins. Segir Bragi að fráfarandi og nýkjörin sveitarstjórn hafi fengið í fangið stórt hlutverk, „en á fyrra tímabilinu lagðist ráðherra málaflokks sveitarstjórna í víking gegn fámennum sveitarfélögum með fulltingi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sú vegferð stendur enn og er Súðavíkurhreppur óæskilegt sveitarfélag í þeirri flóru sveitarfélaga sem til staðar eru. “

Víkur Bragi Þór að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hefur áhyggjur af áformuðum viðmiðum sem snúi m.a. að greiðslum úr sjóðnum til grunnskóla. „Haustið hefur einkennst af ýmsum áskorunum og næstum átökum fyrir sveitarstjóra í hagsmunabaráttu fyrir Súðavíkurhrepp. Er þar af ýmsu að taka, ekki síst skólamálum og tilvist Súðavíkurskóla. Þá hefur enn verið áformað að breyta viðmiðum Jöfnunarsjóðs í sama markmiði og lögum, en þeirri vegferð er beint gegn fámennum sveitarfélögum. Þess ber að geta að stór hluti tekna fámennra sveitarfélaga kemur gegnum Jöfnunarsjóð í dag og því er þetta mikið áhyggjuefni hvernig málin geta þróast.“

Sama er uppi á teningnum varðandi grænbók um stefnumörkun í málefnum sveitarfélaga. Sveitarstjóri sendi inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um bæði þessi verkefni og hefur þar lýst þeim álitamálum sem snúa að rekstri fámennra sveitarfélaga og hlutveki Jöfnunarsjóðs segir í pistli Braga Þórs.

Fiskeldið í Djúpinu hafið

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri víkur að atvinnumálunum og jákvæðum fréttum sem varða uppbyggingu var’ðandi fiskeldi og kalkþörungavinnslu. „En hitt stóra verkefnið er að klára uppbyggingu atvinnulífs í Súðavík í bandalagi við Íslenska kalkþörungafélagði. Þeir hlutir eru nú að raungerast eftir langan aðdraganda frá árinu 2014. Einnig er komið að þeim tímapunkti að fiskeldi hefur byrjað af krafti í Ísafjarðardjúpi. Háafell sem er sem stendur eina fiskeldisfyrirtækið með eldisleyfi í Djúpi hefur sett um 1.300.000 seiði í Vigurál í sjókvíar og hefur starfsstöðvar í Súðavík.“

https://www.sudavik.is/is/frettir/nyarskvedja-fra-sveitarstjora

DEILA