Stúdentagarðar Ísafirði: 189 m.kr. í byggðaframlag

Stofnvirði 40 íbúða stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða hefur verið endurreiknað eins og fram kom í frétt á Bæjarins besta í síðustu viku. Bæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og bæjarráð Ísafjarðarbæjar hafa samþykkt viðauka við samning um stofnframlag og bæjarstjórn mun afgreiða málið seinna í vikunni.

Samþykkt nýtt stofnvirði er kr. 971.439.041. HMS greiðir 18% af kostnaði í stofnframlag eða 175 m.kr. Þá bætast við 4% viðbótarframlag frá HMS sem eru 39 m.kr. Loks kemur til sérstakt byggðaframlag ríkisins 189 m.kr. Samtals verður stofnframlag ríkisins 403 m.kr. Hlutur Ísafjarðarbæjar af framkvæmdakostnaði verður 12% eða 116 m.kr.

Samanlagt framlag ríkis og sveitarfélag er 519 m.kr. eða 53% af framkvæmdakostnaði. Eftirstöðvar eru fjármagnaðar með lántöku sem greidd verður með húsaleigu nemenda sem taka úbúðirnar á leigu.

Samkomuleg er um að hlutur bæjarins greiðist í tvennu lagi, helmingur nú strax og seinni helmingurinn þegar vottorð vegna öryggisúttektar liggur fyrir.

DEILA