Strandsvæðaskipulag: breytingar vegna siglingaöryggis

Svæðisráð Vestfjarða.

Svæðisráð hefur gert breytingar á tillögu sinni til ráðherra um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfjarða bæði á Óshlíð og á Arnarnesi í framhaldi af athugasemdum starfshóps um öryggi siglinga.

Starfshópurinn lagði til að halda óbreyttum reit SN21 Óshlíð, en þar er umsókn um fiskeldi, en bæta við ákvæðum um
fjarlægð kvía frá mörkum hvíts geira og dýpi botnfestinga. Ákvað svæðisráðið að þar sem leyfissvæði fiskeldis liggur inn á hvítum ljósgeira vitaljósa skuli sjókvíaeldisstöð ekki vera innan hans eða nær mörkum ljósgeirans en 50 metra. Botnfestingar fiskeldiskvía (tóg og akkeri) skulu vera á meira en 15 metra dýpi (miðað við sjókortanúll) þar sem þær eru innan þess svæðis sem hvítur vitageiri afmarkar.

Á reitnum SN23 Arnarnes eru tvö leyfi í gildi og eitt í umsóknarferli. Þar lagði starfshópurinn um öryggi siglinga til að reitnum yrði skipt upp til að hleypa hvítum geira í gegn og hugsanlega að bæta merkingum við þar sem útgefin leyfi
liggja. Niðurstaða svæðisráðs var að skipta reitnum SN23 upp í tvo reiti þannig að hvítur geiri sé utan þeirra. Aðliggjandi er skipulagsreitur fyrir siglingar, SI6 og segir í athugasemdum svæðisráðs að siglingar muni færast nær miðju Ísafjarðardjúps.

DEILA