Steingrímsfjarðarheiði ófær

Vegagerðin segir að stórhríð sé á Steingrímsfjarðarheiði og heiðin ófær. Vindur er 22 metrar á sek og fer upp í 28 m/sek í hviðum. Á Þrökuldum er einnig stórhríð og vegur opinn núna en þæfingur.

Sömu sögu er að segja um Klettháls, stórhríð og þæfingur. Lokað er um Dynjandisheiði. Á hálsunum milli Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals er þæfingur og óveður.

Á norðanverðum Vestfjörðum er greiðfært um Gemlufalsheiði og opnir vegir frá Ísafirði til nágrannabyggðarlaganna. Lokað er æur Bjarnafirði og norður í Árneshrepp.

Vegir á laglendi um Djúp og Barðastrandarsýslu eru hálir en opnir.

Veðurstofa Íslands telur nokkra hættu á ofanflóðum á norðanverðum Vestfjörðum og aukna hættu á morgun vegna ofankomu. Aðstæður eru að þunnt lag af nýsnævi er á afmörkuðum litlum vindflekum en annars gamall snjór sem er talinn almennt stöðugur eftir umhleypingar. Tekið er þó fram að spáin þurfi ekki að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð.

Appelsínugul viðvörun er fyrir Vestfirði utan Strandasýslu.

DEILA