Skipulagsstofnun ákveður umhverfismat á breytingu á eldissvæðum í Arnarfirði

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að fyrirhuguð breyting Arnarlax á eldissvæðum í Arnarfirði skuli fara í umhverfismat. Fyrirhugað er að eldissvæðin við Hlaðsbót, Tjaldanes, Hringsdal og Kirkjuból verði stækkuð.

Fram kemur í greinargerð Arnarlax að megin tilgangur þessara breytinga sé að hafa kost á því að snúa kvíasamstæðum þvert á straumstefnu og tryggja þannig jafnari strauma og betra súrefnisflæði um eldiskvíarnar og skapa rými til að færa eldiskvíar innan eldissvæðanna ef bregðast þurfi við vegna uppsöfnunar lífrænna efna undir kvíum. Meira rými skapi einnig sveigjan-leika á að fjölga kvíum í þeim tilgangi að minnka þéttleika eldisfiska í hverri kví. Gott súrefnisflæði og minni þéttleiki í kvíum bæti velferð fisksins.

Breytingin hefur ekki í för með sé aukið eldi en breytt afmörkun gæti leitt til þess að starfsemi fiskeldisins skarist við siglingar og veiðar á nytjastofnum í firðinum. Líklegt er að breytingin leiði til þess að dreifing lífræns úrgangs frá eldinu verði önnur í botnlagi Arnarfjarðar en lýst var í umhverfismatinu.

Eldi hefur verið stundað við Tjaldnes og Hringsdal en ekki á eldissvæðum við Hlaðsbót og Kirkjuból. Niðurstaða vöktunar við Tjaldanes var að botndýralífs á áhrifasvæði eldisins hafi flokkast sem „gott“ og „mjög gott“ að lokinni hvíld svæðisins.

Burðarþolsmat fyrir Arnarfjörð er 20.000 tonn og eru útgefin framleiðsluleyfi Arnarlax og Arctic Fish í firðingum 15.500 tonn. Arnarlax hefur sent Skipulagsstofnun matsáætlun um fyrirhugaða aukningu á lífmassa um 4.500 tonn á sömu eldissvæðum og fyrirtækið hefur leyfi fyrir í dag.

Ákvörðun sína um að sérstakt umhverfismat þurfi að fara fram um breytingu á eldissvæðunum rökstyður Skipulags-stofnun með þessari fyrirhugaðri aukningu og því að dreifing úrgangs frá kvíunum verði á annan veg en umhverfismat gerir ráð fyrir sem geti orðið til þess að súrefnisstyrkur í botnlagi falli niður fyrir ásættanleg mörk. Auk þess sé breytingin líkleg til þess að auka álag á lífríki fjarðarins og auka líkur á að vatnhlotið uppfylli ekki verndarmarkmið stjórnar vatnamála.

Kæra má ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 30. janúar 2023.

DEILA