Sjávarútvegur: 60 bráðabirgðatillögur í stefnumótun

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Eggert Benedikt Guðmundsson formaður starfshópsins Aðgengi á kynningarfundi bráðabirgðatillagna. Mynd: Sigurjón Ragnar.

Starfshópar í verkefninu Auðlindin okkar hafa skilað bráðabirgðatillögum til matvælaráðuneytisins. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, skipaði samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og fjóra starfshópa þann 31. maí sl.

í fréttatilkynningu frá Matvælaráðuneytinu segir að markmiðið með verkefninu Auðlindin okkar hafi frá byrjun verið að auka sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem gætt er að umhverfissjónarmiðum, verðmætin eru hámörkuð og dreifing verðmætanna er með sem sanngjörnustum hætti.

Tillögurnar eru 60, og segir í fréttatilkynningunni að sumar þurfi að útfæra enn frekar en aðrar eru lagðar fram til að skapa umræðu og kalla fram viðbrögð í samfélaginu, á Alþingi, hjá hagsmunaaðilum og sem víðast. Áhersla er lögð á að tillögurnar eru í vinnslu og að ekki er um endanlega  afurð að ræða.

Tillögurnar verða ræddar í samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu, í ríkisstjórn, á opnum fundum auk þess sem þær verða sendar fjölmiðlum og birtar á samráðsgátt stjórnvalda.

Aflamarkskerfi áfram og skoða fyrningarleið

Meðal tillagnanna 60 eru tillögur um kerfi fiskveiðistjórnunar. Þar er fyrst lagt til að aflamarkskerfinu verði viðhaldið, enda hafi það „aukið hagkvæmni og hagsæld“. Önnur tillaga er að úthlutaðar aflaheimildir verði fyrndar um um fastan hundraðshluta á ári „en með því er komið á festu um varanleika hlutdeildanna um leið og umráðaréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni er skýrt skilgreindur.“ eins og segir í tillögunni.

Gert er ráð fyrir að þessu fylgi að afnotarétturinn verði tímabundinn og að handhafar aflahlutdeilda geti farið með þær sem óbein eignarréttindi, t.d. varðandi framsal og veðsetningu. Síðan er gert ráð fyrir því, að fyrndar aflahlutdeildir verði seldar jafnóðum aftur á markaði eða á uppboði.

Fyrningarleið er ein leið af þremur sem starfshóparnir velta upp til skoðunar en taka ekki afstöðu til. Hinar tvær leiðirnar eru samningsleið og veiðigjald.

Veiðigjald er skýrð sem sú leið sem stuðst er við í núverandi kerfi. Er miðað við að setja veiðigjald í kr. á hvert kg af veiddum afla í hverjum stofni, reiknað sem þriðjungur af framlegð útgerðarfyrirtækja í veiðum á viðkomandi stofni.

Samningsleið felur í sér gagnkvæma samninga milli einstakra útgerðaraðila og ríkisins um afnotarétt að auðlindinni, þar sem samningsaðilar taka á sig skyldur um að umgangast auðlindina með ábyrgum hætti.

DEILA