SFS: fiskeldið gæti tvöfaldað útflutningsverðmæti sjávarútvegsins

Mynd úr safni

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fengu nýlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey til að vinna ítarlega greiningu á meðal annars tækifærum til uppbyggingar fiskeldis við Íslandsstrendur. Við greiningarvinnuna lagði McKinsey mat á fræðilegt hámark laxeldis í sjó við Íslandsstrendur með því að draga saman þá landfræðilegu eiginleika sem einkenna góð sjókvíasvæði við Noregsstrendur og leita samsvarandi svæða við Íslandsstrendur.

400 þúsund tonna framleiðsla í sjókvíum möguleg

Að teknu tilliti til ýmissa hliðarskilyrða sem m.a. lutu að skipaumferð og laxagengd var það niðurstaða McKinsey að eftir stæðu svæði á Íslandi sem gætu staðið undir 1,1 milljón tonna heildarframleiðslugetu.  Samkvæmt greiningu McKinsey eru Norðmenn að nýta um 9% af fræðilega mögulegum framleiðslustæðum sínum. Ef sama hlutfall væri notað hér á landi gæfu 9% af 4,4 milljónum tonna alls um 400 þúsund tonn í heildarframleiðslu í sjókvíaeldi, miðað við óbreytta tækni og afköst sjókvía. 

Til viðbótar við sjókvíaeldi bætist landeldi. Þar telst KcKinsey svo til að gangi öll verkefni eftir sem eru á teikniborðinu gæti ársframleiðsla á eldisfiski í landeldi numið hátt í 160 þúsund tonnum.

Samanlagt er því möguleg eldisframleiðsla um 550 þúsund tonn á ári hérlendis.

12 þúsund störf og 450 milljarðar kr.

Efnahagsleg áhrif af mögulegu eldi eru mikil.  Útflutningsverðmæti þeirra eru að andvirði í kringum 450 milljarða kr. Í því samhengi má hafa í huga að á liðnu ári nam samanlagt útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða tæplega 400 milljörðum kr. Þessi mögulega aukning á laxeldi ein og sér þýðir því ríflega tvöföldun á þeim verðmætum. Þessi viðbót við útflutningstekjur landsmanna slaga langt upp í tekjurnar af ferðaþjónustunni.

Út frá áætlunum Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis og um bein og afleidd störf áætlar SFS að að framleiðsla um 550 þúsund tonna muni hafa í för með sér yfir 7 þúsund bein störf og yfir 5 þúsund afleidd störf eða samtals um 12 þúsund ný störf. Bent er á að um er að ræða margs konar og vel launuð störf að ræða sem krefjast sérfræðiþekkingar á ýmsum sviðum. Má þar nefna fiskeldisfræðinga, dýralækna, rafvirkja, vélfræðinga, líffræðinga, fiskvinnslufólk, bílstjóra o.fl.

SFS vísa til stefnumörkunar norskra stjórnvalda sem hafa sett sér það markmið að auka fiskeldið þar í landi úr 1,3 milljónum tonna í fimm milljónir tonna á ári eða ríflega þrefalda það. „Það skal engan undra að Norðmenn skuli setja markið hátt í þessum efnum, enda hefur fiskeldi þar í landi margsannað efnahagslegt og samfélagslegt gildi sitt.“ segja SFS í kynningu sinni á möguleikum fiskeldis hér á landi.

DEILA