Samkennd og samhugur einkenndu minningarathöfnina á Patreksfirði

Minningarathöfn var haldin á Patreksfirði gær um þau sem létust í krapaflóðunum á Patreksfirði 22. janúar 1983. En þá voru 40 ár frá því að krapaflóðin féllu á bæinn Patreksfjörð með þeim afleiðingum að fjögur létust og nítján hús skemmdust. Að því tilefni var blásið til minningarathafnar um hin látnu.

Samkennd og samhugur einkenndu daginn þar sem látinna var minnst og þeim þakkað sem tóku þátt í björgunaraðgerðum í kjölfar flóðanna og lögðu sig á sama tíma í lífshættu. Vígslubiskup tók þátt í minningarstundinni í kirkjunni sem var undir stjórn Sr. Kristjáns Arasonar. Að því loknu lagði Gísli Pétursson blómsveit að minnisvarða sem reistur var 1993 til minningar um þau sem létu lífið í flóðinu, en Gísli missti bæði móður sína og bróður og fylgdu aðrir sem upplifðu mikinn sorg og missi í kjölfar flóðanna og kveiktu á friðarkertum. Í lokin var síðan haldin minningarathöfn í Félagsheimilinu með ávörpum, Úlfars Thoroddsen, fyrrv. sveitarstjóra, Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur, bæjarstjóra og í fjarveru forseta Íslands tók Sigurður Viggósson að sér að lesa ávarp forseta fyrir gesti. Slysavarnarfélagið Unnur hafði svo töfrað fram dýrindi kaffiveitingar sem gestir gæddu sér á áður en haldið var út í snjókomuna. Hugljúfir tónar Vestfirsks tónlistarfólks skapaði einstaka stemningu á viðburðum dagsins.

Heppnaðist hátíðin í alla staði vel en um 180 manns voru í minningarathöfnina. Það eina sem ekki var hægt að hafa áhrif á setti smá strik í reikninginn, þ.e. veðrið. Ýmsar heiðar voru illfærar og þurftu margir að breyta áætlunum sínum í þátttöku í athöfninni.  Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson ætlaði að taka þátt í viðburðinum, en svo óheppilega vildi til að varðskip Landhelgisgæslunnar sem hann hafði fengið far hjá yfir Breiðafjörðinn fékk útkall í nótt til að bjarga vélarvana togara. Til allrar mildi kom varðskipið Freyja togaranum til bjargar og forsetinn virðist una sér vel um borð í varðskipinu þar sem hann siglir áfram með þeim norður fyrir land.


Sr. Kristján Arason sóknarprestur og Sr. Kristjáni Björnssyni, vígslubiskup.
Hluti af viðbragðsaðilum sem tóku þótt í björgun á sínum tíma
Við minnisvarðann sem reistur var fyrir 30 árum til minningar um þau sem létust í flóðinu

Myndir: aðsendar.

DEILA