Reykhólaskóli : seinka í tilraunaskyni skólastarfi til kl 9

Reykhólar.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt tillögu skólastjóra Reykhólaskóla um að skólastarfi verði seinkað út marsmánuð til kl. 9 alla virka daga og nemendur fari heim mánudaga til fimmtudaga kl. 15:20 og kl. 12:30 á föstudögum. Morgunmatur verður frá 8:45-9:00 og verður val fyrir nemendur áður en skóli hefst. Til að koma til móts við nemendur í skólabílum munu bílarnir vera að koma að skóla í morgunferð kl. 8:50. Tómstundastarf 1.-4. bekkjar fari fram á skólatíma en eldri bekkja að skóla loknum.

Breytingin verður tilraunaverkefni til að kanna hvort kæmi betur út að seinka skólatíma yfir erfiðustu vetrarmánuðina, þar sem oftast þarf að fella niður skóla, skólabíl seinkar eða börn í skólabílum komast ekki í skóla vegna veðurs.

Sveitarstjórnin óskar eftir því við Vegagerðina að snjómokstri verði lokið áður en skólabílar fari af stað að morgni.

DEILA