Raggagarður: Nafnið á garðinum

Í fyrra varð gerður rekaviðarskógur, en Raggagarður hafði fengið 11 staura og tvær rótarhniðjur frá Pétri bónda í Ófeigsfirði í Árneshreppi.

Hugmynd Boggu á að reisa sumarleikjasvæði var komin nokkuð áður en Ragnar Freyr féll frá 17 ára gamall. Ástæðan var að við höfðum farið fjölskylduferð til Akureyrar og heilluðumst af Kjarnaskógi. Þar var hægt að leika með börnunum án kostnaðar og leikið og hlegið saman.  Enginn slíkur garður var til á Vestfjörðum.

  Þegar Bogga fór af stað að spyrja heimamenn um þessa hugmynd fannst öllum hugmyndin frábær, en í augnaráði náði Bogga að lesa það á sumum viðmælendum að þetta væri frábær hugmynd en það færi enginn að gera þetta, hvað þá í Súðavík.  En annað kom á daginn 18 árum síðar.   Þegar sótt var um svæðið var það ekki alveg átakalaust.  Þetta var á snjóflóða-hættusvæði þar sem 14 manns fórust en þó ekki á þeim lóðum sem Raggagarður stendur á.  Á efra svæðinu fór leikskóli þorpsins og á neðri lóð skemmdist hús sem var svo rifið.  Í fyrstu voru þeir sem misstu ekki sáttir við, að þarna kæmi skemmtigarður og fyllerí í nágrenni við minningarreitinn. Þannig var fyrsta frétt um þennan garð í blaðinu Mannlíf á sínum tíma.   Þar sem Bogga hafði sjálf bæði misst manninn sinn í snjóflóði og síðan son þeirra í bílslysi þá var auðvelt að setja sig í þeirra spor.  Þau voru sannfærð um að þarna væri um að ræða leiktæki fyrir alla fjölskyldunna og þarna væri óheimilt að hafa áfengi um hönd.  Í dag 18 árum síðar má segja að minning um ungan dreng og minning um þá sem fórust færu vel saman.  Með minningu um Ragnar er talað um að njóta samvista saman meðan við getum því enginn veit hvað við höfum langan tíma.

Mikil sorg og drungi hvíldi lengi vel yfir gamla þorpinu  en í dag er eins og garðurinn nái að lyfta þssari sorg í gleði og það er það sem kemur fyrst í huga fólks sem heimsækir Súðavík í dag.

Í upphafi garðsins var hann nafnlaus.  Þegar Bogga byrjaði á garðinum var hún að vinna aukavinnu við að slá garða. Sem dæmi kirkjugarðinn í Súðavík og Eyri og síðan garðinn hjá félagi tónlistarmanna Bjarnabúð.  Til að útskýra fyrir fjölskyldunni hvar ég væri að vinna þá fór Bogga að kalla svæðið vinnuheitinu Raggagarð.     Sumarið 2005 var haldið hugmyndakeppni um nafn á garðinn og fengu allir vestfirðingar að taka þátt í því.   Það var greinilegt að eitthvað hefur hvissast um vinnuheitið um þorpið.  Flestar tillögur sem komu var Raggagarður.  Því að nafnið Raggagarður komið til á lýðræðisslegan hátt og valið að heimamönnum.

                                                             Styrktaraðilar.

Styrktaraðilar í garðinum eru orðnir fjölmargir.  Raggagarður hefur sett upp skógarskilti við garðinn til heiðurs þeim sem hafa styrkt garðinn yfir 500.000 kr eða meira hvort sem er í formi efnis, vinnu eða fjárframlaga.  Þessi skilti komu fyrst upp 2005 og hefur bæst við á hverju ári.  En það eru aðrir styrktaraðilar vel yfir 400 alls og eru skráðir í greinargerðir Raggagarðs.  

Ísafjarðabær Bolungarvíkurkaupstaður ásamt Súðavíkurhrepp hafa sent vinnuskóla sína einn dag hver í Raggagarð til að aðstoða við að hreinsa gróður og fleira.  Í lok hvers vinnuskóla er grillað fyrir krakkana.  Síðan fær framkvæmdastjóri Raggagarðs að fræða þau um sögu Raggagarðs.  Þau eru spurð í byrjun hver á Raggagarð.  Fyrstu tvö svörin eru yfirleitt “ Bogga” og næst Súðavíkurhreppur. Þau eru leiðrétt með því að segja þeim að allir sem hafa lagt garðinum lið í gegnum árin eiga í garðinum og þar með ættu þau núna í garðinum.  Það væri þeirra að passa upp á garðinn sinn í framtíðinni og ganga vel um hann.  Hver hópur gróðursetur tré í Raggagarði ár hvert.  Þetta er styrkur til garðsins frá sveitarfélögunum þremur.

Boggutún og garðurinn.

Í byrjun var leikjasvæðið hannað á rúðustrikað reiknisblað og Bogga hannaði svæðið með það fyrir augum að neðra svæðið og röragrillin væru fyrir yngstu börnin næst foreldrum sem eru að grilla.

Eldri börnin sem væru sjálfstæðari gætu farið á efra svæðið fjær foreldrunum en samt í augnfæri. Garðurinn var hannaður þannig að það er einn inngangur og foreldrar eigi því auðveldara með að fylgjast með ef börnin ætli að laumast út.

Bogga átti sjálf 2 börn af fyrra hjónabandi og tvíbura með seinni manni sínum Halldóri ásamt því að hann átti tvö fyrir.  Garðurinn var hannaður af foreldri með mörg börn.

Í fyrstu fékk Bogga bækling frá Jóhanni Helga og co og fengu börnin í skólanum að aðstoða félagið við að velja leiktæki í garðinn.  Súðavíkurhreppur styrkti garðinn um 1.3 miljón kr til kaupa á kastala sem kostaði 2,8 milj kr. Einnig gar fyrirtækið Lappset Rovaniemi í Finnlandi garðinum 5 metra háar álftir sem eru hlið við inngang Raggagarðs. Sá styrkur var upp á 950 þús kr.  Þær fengu nafnið Askur og Embla.

Árið 2008 kom bankahrunið mikla og kaup á leiktækjum voru ógerleg þar sem þau hækkuðu upp úr öllu valdi.  Því var ekki gert meira á leikjasvæðinu eftir bankahrun.  Boggu hefur alltaf dreymt um að hafa einnig útivistarsvæði sem fólk gæti notið, en ekki með neinu leiktæki og því ekki þörf á starfleyfi fyrir það svæði.  Hugmyndin með útivistarsvæðinu var að gestir gætu séð sérkenni Vestfjarða á einum stað.  Að búa til eitthvað skemmtilegt úr náttúrefnum.

Nemi í landslagsarkitektúr Sigurður Friðgeir Friðriksson tók að sér að teikna fyrir Boggu garðinn, svo það væri vænlegra en teikningar verkakonunar og styrktækara. Hann kom með þá hugmynd meðal annars að reisa rekaviðarskóg og sviðið yrði í líkingu við bát.  Árið 2014 voru reist þrjú geymsluhús, en áður fékk félagið að geyma lausamuni eins og bekki og borð í skúr við Túngötu en það hús var svo selt.   Jónbjörn Björnsson mótaði svo svæðið fyrir ofan til að gera áhorfendasvæði í skeifu kringum bátasviðið sem var ætlað til að halda uppákomur í garðinum.  Einnig var sett lengra rör í skurð sem rennur í gegnum túnið og þar gerð náttúrutjörn og boga brú til að labba yfir skurðinn. 

Álfasteinninn.

Á Súðavíkurveginum rétt utan við Súðavík var klettaborg og stein sem stóð út úr sem dró athygli mina í hverri ferð til Ísafjarðar.  Ég sá að vegagerðin hafði borað gat til að sprengja hann en ekkert gert í því.  Líklega af því í steininum búa álfar.   Ég bað Vegagerðina leyfi til að fá steininn í garðinn.  Jónbörn gröfumaður neitaði að taka steininn fyrr en ég væri búin að tala við álfana og bjóða þeim betri stað í Raggagarði, sem ég gerði.  Hann hafði áhyggjur af því að álfarnir myndu mögulega láta vélarnar hans bila.  Á Íslandi má ekki hreifa við eða færa álfabyggð nema með leyfi álfanna og þeir séu sáttir.  Taldi Jónbjörn að steinninn væri um 11 tonn og líklega sá stærsti sem hann hefur keyrt langa leið.  Þeim til heiðurs var búin til fánastöng sem sett var í boraða gatið fyrir ofan dyrnar hjá þeim. Þeir una sér sáttir á Boggutúni.  

Dvergasteinar.

     Dvergasteinar er bústaður dverga sem var boðið að búa í garðinum.  Í Álftafirði er bær sem heitir Dvergasteinn og þar hjá er Svarthamar, þar sem  steinarnir voru sóttir. 

“Sagt er að ein húsfreyja á Dvergasteini hafi gert gabb að hinni miklu trú á dverginn í steininum. Lét hún börn sín leika sér umhverfis og á steininum með þeim ólátum sem þau vildu. Nótt eina dreymdi húsfreyju að dvergurinn í steininum kæmi til sín. Hann var mjög reiðilegur og mælti til húsfreyju: ,,Illa gerir þú og ósæmilega að gera mér og fjölskyldu minni allt illt er þú megnar. Skal nú lokið ódáðum þínum og þú meðtaka þau laun er þú hefir til unnið“.
 

Þegar dvergurinn hafði þetta mælt fékk húsfreyja augnverk svo mikinn að henni þótti sem höfuð sitt myndi springa. Jafnframt sótti að henni svo mikið magnleysi að hún gat sig hvergi hrært í rúminu. Sumir segja að hún hafi andast úr þessum leiða sjúkdómi en aðrir að hún hafi náð sér eftir margar vikur og þá verið breytt í sinni til dvergsins. Lét hún færa skreið og mat að steininum og lagði hart við að enginn kæmi þar nærri til leika eða ónæðis. Brá þá svo við að allur hagur húsfreyju og bónda greiddist hið besta en áður höfðu þau mætt ýmsum undarlegum óhöppum.”

                                Vestfirskar þjóðsögur  sögn Friðriks Guðmundssonar

Óskatjörn.

Vatns snigillinn í tjörninni var búin til af börnum í Súðavíkurskóla í listaverkefni í gömlu sundlauginni í Árdalnum.  Það voru þjú ungmenni sem bjuggu til vatnsnigilinn. Það var Ragnar Freyr Vestfjörð (Raggi) Ester Ýr Guðjónsdóttir og Ragnar Elvarsson.  Árið 2013 var snigillinn færður í tjörnina á Boggutúni og sómir sér vel þar.  Heyrst hefur að ef maður óskar sér uppi á brúnni munu vættir garðsins heyra óskina og hún rætist.  Þessi snigill er handverk Ragga og hinna tveggja á svo sannarlega heima í Raggagarði. Bogga hannaði tjörnina.

Holugrjót frá Hvítanesi.

Hjónin á Hvítanesi gáfu garðinum fimm holugrót til að setja upp í Boggutúni víðs vegar um garðinn.  Holugrjótið er eitt af sérkennum í Ísafjarðardjúpi.  Jónbjörn Björnsson fór á vörubíl inn á Hvítanes og sótti grjótið og gaf alla sína vinnu.

Rekaviðarskógur frá Árneshrepp á Ströndum

Rekaviðarskógurinn er fenginn frá Ófeigsfirði og Litlu Ávík í Árneshreppi á Ströndum.  Mikið hefur minkað að rekaviður komi í fjörur í dag.  Rætur rekaviðsins er skemmtilegt að horfa á og og sjá ýmsar fígúrur úr þeim.  Inni í skóginum er borð og 12 tröllasæti en tröll eru mörg á Ströndum og á landinu öllu.  Rekaviðurinn er tilvísun í sérkenni Strandarbyggðar.  Pétur í Ófeigsfirði sá um að safna rekaviðnum saman og flutti langa leið til Súðavíkur.

                       130 ára hvalbein.

Á þessum tíma fékk Bogga Kjartan Hauksson kafara og hans félaga til að kafa eftir hvalbeinum við Langeyri í Súðavík en þar er eins og fjöldagröf hvala á botninum eftir útgerð Norðmanna 1883 til 1904. Byggt var hús á útivistarsvæðinu fyrir þessi 130 ára hvalbein svo almenningur geti þau augum litið og lesið um sögu hvalveiða í Súðavík.  Kjartan og félagar gáfu alla sína vinnu við verkið gert með samþykki mynjastofnunar. Hrefnuveiðar voru first stundaðar í Súðavík og verður sagt frá þeirri sögu á skilti við hvalbeinssporð sem fenginn var að gjöf frá Súðavíkurhrepp.

                                                    Hringborðið.

Orkubú Vestfjarða hafði gefið garðinum tvö línukefli og 10 línustaura til að nýta í garðinum.  Það var meðal annars notað í hringborð með 12 sætum fyrir gesti garðsins á Boggutúni.  Sætin eru merkt hvert og eitt með nöfnum þorpa og bæja hringin í kringum Vestfirði.  Krakkarnir læra nöfnin á bæjunum og hver og einn getur valið hvort hann sitji á Bíldudal eða Hólmavík svo dæmi séu tekin.  Sæti Hnífsdælinga er til hliðar við grillið rétt hjá.

                                               Listaverk Raggagarðs.

Gerður Gunnarsdóttir höggmydlistarkonan gaf garðinum fimm listaverk á afmælishátíð garðsins 2015.  Þrjú þeirra standa saman og eru vættir. Eitt þeira heitir tveir heimar og það fimmta er staðsett fyrir framan Bessa og heitir UMHYGGJA.  Hún hefur unnið að þessum listaverkum í bílskúr í Súðavík.  Einnig gaf hún steyptu súlurnar undir listaverkin.   Á 15 ára afmælishátíð garðsins sem var 8. ágúst 2020 gaf Gerður annað listaverk sem hún bjó til frá grunni.  Listaverkið heitir Æskan og er staðsett inni á leikjasvæðinu.

BLÓM Í GLUGGA

Þann 21. júlí 2021 var haldin fjölskylduhátíð og garðinum var gefið listaverk að gjöf.  Það er Finnur Jónsson athafnarmaður og hans fjölskylda sem gáfu verk eftir Jón Gunnar Árnason sem gerði líka Sólfarið á Sæbraut og Siglingu á Akureyri.  Þetta verk heitir BLÓM Í GLUGGA.  Jón Gunnar gerði þetta listaverk fyrir Finn Jónsson í Flatey í Breiðafirði þegar hann var ungur Nú ákvað fjölskyldan að gefa Raggagarði þetta stórkostlega verk. Litbrygðin á blómunum breytast eftir sólskyni og veðurbirtunni hverju sinni.

Frisbívöllur 2022.

Á þessu ári 2022 var sett upp 9 körfu frisbívöllur á Boggutúni og alla leið upp í Ljósulund sem er í einkaeigu.  Þetta var samstarfsverkefni garðsins og Ungmennafélagsins Geisla í Súðavík.  Næsta sumar verður lokið við að brúa skurð og gera stiga yfir rafmagnsgirðinguna.  Nú er verið að leita eftir styrk til að gera betra göngufæri upp að Ljósulundi og gera útsýnispall þar sem hægt er að horfa inn Álftafjörðin og þorpið og yfir á Snæfjallaströnd ásamt frábæru útsýni yfir Raggagarð. 

Hvalbeinshlið.

Einngi fengum við að eiga kjálkabein af hvalreka í Hestfirði 2021. Þau eru ætluð í að gera hlið í garðinn við hvalsporðin og sögu hvalveiða og Hrefnuveiða í Súðavík. Súðavíkurhreppur gaf garðinum einn hvalsporð í garðinn.

Vilborg Arnarsdóttir Bogga og Raggagarður hefur hlotið nokkrar viðurkenningar. Þar má nefna:

17. maí 2005 var Bogga tilnefnd til Foreldraverðlauna Heimilis og Skóla fyrir frumkvöðlavinnu við gerð Raggagagarðs í Súðavík.

17. ágúst 2013 fékk Bogga og garðurinn viðurkenningu frá Súðavík með skjali og útskornu kleinujárni tiltilinn   “ Sprakki Súðavíkur”. Fyrir verkefnið Raggagarður.

13. apríl 2015 var Bogga heiðruð af Byggðastfonun með viðurkenningunni LANDSSTÓLPINN  vegna verkefnisins Raggagarður.

16. desember 2021 fékk verkefnið Raggagarður umhverfisverðlaun Ferðamálastofu.  Gripurinn var afhentur í Raggagarði  15. júní 2022.

Kleinubakstur.

Í upphafi var til góð hugmynd en enginn peningur til að framkvæma hugmyndina.  Bogga byrjaði á að steikja kleinur 2003 um haustið til að selja heimamönnum til fjáröflunar fyrir garðinn.  Það árið safnaðist um 46.253 kr.  Bogga steikti  frá haustinu 2003 til loka 2013 kleinur fyrir bæði einstaklinga og stærsta skip Vestfjarða sem var Júlíus Geirmundsson ÍS 270.  Einnig leikskóla jarðarfarir og fleira.  Einnig tók Bogga þátt í kleinukeppi á Sæluhelgi Suðureyri í fjögur skipti og vann “Besta kleinan” í öll skiptin. Eins og áður sagði voru steikt 3,9 tonn á þessum árum og í það fóru 11 mánuðir samanlagt af frítíma hennar.

               Sagan sem hefur ekki verið sögð.

  Öll árin hefur framkvæmdastjóri skrifað greinagerð um hvert ár allt sem var gert eða gefið garðinum. Um vinnudaga og fleira.  Þó að greinagerðirnar geymi mikla sögu er svo margt sem ekki er sagt.

   Veturinn 2004 var Dóri maðurinn hennar Boggu að vinna hjá Gámaþjónustu Vestfjarða á Ísafirði.  Hann fór að nefna þetta með hugmynd Boggu með fjölskyldugarð.  Gámaþjónustan hafði svo samband og bauð stjórn Raggagarðs að móta svæðið og skafa af villigróður og fleira.  Þeir útveguðu  gröfu og Dóri maður Boggu ásamt Hagalín gáfu alla vinnu sína við þetta sem tók heila helgi.  Skóflustungan var tekin 14 maí. 2004. 

  Það er lítið mál að hafa hugmynd á blaði, en mun stærra skref að byrja á þessu því þá væri ekki aftur snúið né hætt við.

Í upphafi þegar kleinubaksturinn hófst fékk ég stundum heilu pakkningarnar af Kornax hveiti eða sekki, en frændi mannsins míns vann stundum fyrir Kornax.  Þetta var gert með leyfi einhverra í Kornax en aldrei mátti segja frá því. 

  Sótt var um styrk í pokasjóð um 1 milj kr þennan vetur.  Svo var skroppið suður á kynningu ferðamála í Laugardagshöll þar sem Bogga vann við ferðamálin í Súðavík.  Fyrir tilviljun hitti Bogga Jóhann Helga og Co sem hún hafði verið í sambandi við varðandi leiktæki.  Hann bauð Boggu að fara á rúntinn með sér á höfuðborgarsvæðinu til að skoða það sem hann flytur inn af leiktækjum.  Hún hafði ekki tíma því hún átti bókað flug strax eftir sýningu.  En svo fékk svo símtal frá Vá-Vest hópnum sem var forvarnarhópur Vestfjarða og báðu Boggu um að vera aðeins lengur því Vá-Vest hópurinn hafði unnið til foreldraverðlauna heimilis og skóla. 

Þá hringdi Bogga í Jóhann og spurði hann hvort boðið um rúntinn stæði enn. Já, hann ætlaði að koma og sækja Boggu til  tengdaforeldra hennar.  Boggu fannst þetta væri kannski tilgangslaus ferð því ekki dugði kleinu peningurinn fyrir einu leiktæki.  Á meðan Bogga beið úti hringdi Dóri hennar og sagði það í fréttum að Raggagarður hefði fengið eina miljón krónur í styrk.  Held að Jóhann hafi orðið hissa að sjá dansandi konuna á gangstéttinni af gleði. 

  Jóhann spurði af forvitni af hverju Bogga verkakonan væri að fara út í þetta í Súðavík.  Við samtal okkar sagði hún honum frá Ragnari heitnum sem lést í bílslysi og í ljós kom að hann hafði misst son sinn 8 ára í bílslysi árinu áður.  Það er eins og örlögin sæi til þess að við mundum hittast á þessum tímapunkti og hann hafði fullan skilning á tilganginum með garðinum.  Síðan þá hafa þau verið vinir allar götur síðan. Öll keyptu leiktækin í garðinum koma frá Lappset í Finnlandi og Jóhann hefur gefið garðinum allt að 20% afslátt á leiktækjunum.

   Það er dýrt að láta flytja mikið alla leið vestur á firði.  Til að byrja með fékk garðurinn góðan afslátt hjá Flytjanda en seinna var afslátturinn orðin 50% af fluttningi.  Þegar tíminn leið fluttu þeir nánast allt fyrir garðinn endurgjaldslaust.  

    Jónbjörn Björnsson gröfumaður í Súðavík tók við keflinu á eftir Gámaþjónustu Vestfjarða. Hann var nánast alltaf tilbúin að koma og vinna við einhverjar framkvæmdir þegar Bogga hringdi. Oftast var biðin ekki löng.  Það má segja að hann hafi unnið mest alla gröfuvinnu við garðinn á uppbyggingartíma hans.  En því miður lést hann af krabbameini vorið 2010.  Tígur rhg sem er í eigu sonar hans og tengdadóttur hafa verið garðinum innan handar ef á þarf að halda.  Jónbjörn gaf mikið að sinni vinnu og rukkaði nánast bara fyrir tækin og kostnaði.

   Þegar byrjað var á Boggutúni varð mikið jarðrask að gera grunnana fyrir kofa og gera áhorfendamönina.  Það þurfti því að tyrfa heilan helling.   Ekki var auðvelt að fá skorið torf í nágrenninu.  Elvar í Tungu Bolungarvík var að skera torf og Bogga reyndi eftir bestu getu að mæla fermetra sem þurfti.  Síðan var hringt í Elvar og hann spurður hvað fermetrinn kosti.  Hann var ekki með ákveðið svar en gaf þó upp einhverja fermetra verð.  Hann sagðist gefa upp heildar verð þegar torfið væri komið.  Málið var að ekki var hægt að kaupa meira en peningur væri til í sjóð Raggagarð hverju sinni.       

  Bogga gerði sér enga grein fyrir hvað 800 fermetrar væri mikið eða mörg bretti.  Vissi að fjármagnið væri frekar tæft til að lifa af veturinn og fasta kostnaðinn.  Þremur dögum seinna kemur stærðarinnar trailer með einhver 18 bretti af torfi.  Hraðfrystihúsið Gunnvör í Súðavík lánaði lyftara til að losa af bílnum.  Bogga varð brugðið að sjá allt þetta magn.

Síðan með hjartað í buxunum spurði Bogga Elvar í Tungu hvað skuldin væri fyrir allt þetta torf.  Þá var svarið sem Bogga fékk  “ SEGÐU BARA TAKK”  Það er ekki hægt annað er að tárast við þessar aðstæður.

  Sumarið 2020 fékk garðurinn styrk til að gera garðinn aðgengilegri fyrir fatlaðra og aldraðra með því að leggja mottur um allan garð og laga bílastæðið og setja ottodekk á akveginn að bílastæði.  Það þurfti sérstakt efni í undilagið.  Það var haft samband við Steypustöðina á Ísafirði til að fá rétta stærð af efni.  Þá var Bogga spurð um hversu marga rúmetra þyrfti.  Verkakonan vissi ekkert um hvað rúmetri af sandi væri mikið en sagði að það þyrfti eins og eitt vörubílshlass af sandi,  svona vörubíl eins og Jobbi heitin átti. 

Seinna um daginn kemur þessi risa vörubíll sem var mun stærri en vörubíllin hans Jobba fullur af sandi.  Bílstjórinn spurði hvar hann ætti að sturta þessu.  Síðan var spurt hvað allur þessi sandur kostnaði og flutningur.  Þá var svarið “ BARA EITT KNÚS ” . 

Einn daginn var hringt og sagt að gamall maður vildi hitta Boggu í garðinum.  Það var brunað í garðinn.  Þá var þar staddur Elías Ketilsson elsti Bolvíkingurinn.  Hann sagði Boggu að hann vildi svo gjarnan taka þátt í vinnudögum eða gera eitthvað en hann væri orðin gamall og ekki til stórræðanna.  Síðan rétti hann Boggu umslag og honum var að sjálfsögðu þakkað fyrir.  Síðan kom í ljós að í umslaginu var 100.000 kr gjöf til garðisns.

Þegar stjórn Raggagarðs setti niður rekaviðarstauranna þurfti að fá litla meðfærilega gröfu.  Leitað var til Elvars í Tungu í Bolungarvík um litla vél á leigu.  Það var lítið mál,  ef Dóri myndi sækja hana til Bolungarvíkur.  Þegar henni var skilað var spurt um reikningsnúmer til að borga fyrir leigu á vélinni.  Þá kom svarið að reikningurinn væri skirfaður á kirkjuna eða nánar tiltekið hjá Guði.

Vorið 2022 var hringt í Boggu og hún beðin um reikningsnúmer hjá garðinum.  Jón Guðbjartsson vildi þakka fyrir sig og sín börn og barnabörn fyrir garðinn.  Sagði að hann væri mikið notaður af þeim. Daginn eftir kom í ljós að Jón Guðbjartsson eigandi Brims hafði lagt inn á reikninginn 500.000 kr.  Hann vildi samt ekki fara á skilti né að það væri sagt frá því.

Sumarið 2022 þurfti Bogga að fá nokkrar fötur af salti til að draga úr gras sprettu á göngustígum.  Haft var samband við fiskvinnsluna Jakob Valgeir ehf í Bolungarvík.  Árinu áður hafði verið fengið um 100 kg frá þeim úr biluðum poka.  Það var sjálfsagt mál að fá salt.  Daginn eftir er flutningarbíll frá Samskipum á bílaplaninu.  Bogga átti ekki von á neinum sendingum svo að henni grunaði að bílstjórinn væri að villast eitthvað.  Nei, hann var að sendast með 1 tonn af salti í poka á bretti fyrir garðinn.  Enginn var reikningurinn hvorki fyrir saltið né flutninginn.

Eitt sinn var Bogga í Húsasmiðjunni að kaupa efni fyrir garðinn.  Í leiðinni skoðaði Bogga áltröppur í ýmsum stærðum.  Garðurinn átti gamlar litlar tröppur sem stóðu ekki nógu vel en þær voru áður til heimilis Boggu og Dóra í Holtagötu og orðnar lélegar.  Það kemur maður og spyr hvað væri verið að skoða.  Honum var svarað að við ættum svo litla en samt nothæfa tröppur og þær yrðu bara að duga.  Klukkutíma eftir að Bogga var komin til Súðavíkur var hringt og spurt hvar hún væri stödd.  Vildi hitta konuna í Raggagarði.  Þarna stóð maðurinn með nýjan og stærri stiga sem hann hafði keypt í Húsasmiðjunni eftir að við hittumst þar.  Hann sagði að þetta væri gjöf til garðsins frá honum og konu hans.

Bogga hefur fulla trú á því að það séu vættir sem leggja garðinum lið og halda verdarhendi yfir honum.  Beinteinn Ásgeirsson eigandi Sjónarhóls í Súðavík (Faðir Siggu Beinteins) hefur verið í bænahring.  Hann kom með 10.000 kr til Boggu og sagði að þetta væri áheitarfé.  Hann sagði að hann hefði verið beðin um það frá þeim að handan að benda mér á að kraftur Raggagarðs og góðir vættir væri ekki síðri en í Strandakirkju. 

Margt hefur gerst sem styrkir þessa trú um vættina.  Á 10 ára afmælisdegi garðsins var blásið til afmælisveislu í garðinum.  Veðurspáin var sæmileg en spáði þó skýiðu og mögulega smá rigninga eða úða.  Auðvitað bað Bogga vættina um að þetta muni sleppa. 

Þegar afmælið byrjaði var skýjað en fljótlega dró ský frá sólu og það var heiðskýrt á meðan afmælið stóð. Eftir afmælið kom skýjarhulan og rigningar úðinn. 

   Einn daginn 2013 var hringt og smá hópur með Steiney og fleirum voru að taka upp skemmtiþátt fyrir sjónvarpið og voru að heimsækja vestfirðinga.   Það var hávaða rok og mikil rigning.  Bogga hugsaði sem svo að þetta gengi ekki í þessu veðri að taka upp.   Þegar kom hádegi og þau voru að mæta í garðinn stytti upp og það var miklu minni vindur.  Viðtalið fór fram í garðinum og þau kvöddu.  Stuttu seinna var rokið komið á fullum þunga og grenjandi rigning með.  Tilviljun eða ekki?

Oft þegar ílla hefur gengið og Bogga við það að gefast upp þá er eins og aðrar dyr opnist.  Stundum eins og Boggu sé stýrt af einhverjum ósýnilegum öflum. 

   Sumarið 2021 var Bogga tvo mánuði samfleitt að leggja mottur í göngustíga um allan garð.  Það kom í ljós að það vantaði beygjur og þær voru fastar í sendingu að erlendis frá. Það tafði verkið í nokkra daga.  Bogga ákvað þá að skreppa norður á Akureyri yfir helgi og fá covid sprautuna.  Í Hestfirði kom hún auga á ókynd í fjörunni sem virtist vera löngu dauður hvalur sem hefur rekið á land.  Um leið og komið var norður var hringt í Hvítanes bændur til að spyrja hvort þau ættu þennan hvalreka.  Því næst var spurt hvort Raggagarður mætti fá kjálkabeinin af hvalnum.  10 mín seinna var hringt til baka og sagt að Raggagarður mætti fá beinin en all margir voru búnir að falast eftir þeim en ekki búið að lofa neinum.  Það er mikil tilviljun að Bogga hafi farið þennan dag og séð skeppnuna því að daginn eftir hefði verið búið að lofa einhverjum hvalbeinunum. Þarna var komin efniviður í hvalbeinshlið í Raggagarð eins og voru sett upp við stöðvastjóra hús norðmanna á sínum tíma.

Kærleikurinn í garðinum.

    Það er engan veginn hægt að tæma þennan kærleikslista yfir dásemdar fólk né sambærilegar sögur úr garðinum.

  Ef Dóri eiginmaður Boggu hafi ekki hvatt hana til að láta þennan draum rætast þá væri enginn Raggagarður í dag.  Dóri er þessi sem lítið fer fyrir en hefur lagt gríðarlega mikla sjálfboðavinnu við að setja nánast öll leiktæki saman og setja þau niður ásamt svo mörgu öðru.  Er hægri hönd Boggu.  Hann hafði orð á því að það hafi sparast mikið í sálfræðikostnað eftir fráfall Ragga því Raggagarður hafi haft jafn mikin ef ekki meiri jákvæð áhrif og sálfræðimeðferð. 

Þó að það sé búið að framkvæma fyrir rétt um 50 miljónir kr frá upphafi þá er eins og fram hefur komið mikið af gjöfum sem ekki eru inn í þessum tölum því erfitt er að verðleggja suma styrki.

    Það er gríðarlega mikil sjálfboða vinna heimamanna og fjölmargra gesta.  Þó svo að Bogga hafi farið af stað með hugmyndina og fylgt eftir hugmyndum þá eru það í raun ekki verið hægt að gera þetta nema með öllum þessum aðilum sem hafa lagt garðinum lið. 

  Vestfirðingar sjálfir eru duglegir að nýta garðinn á sumrin og mikið er um barna afmæli í garðinum.  Allir vita um tilurð garðsins og því ganga vestfirðingar vel um garðinn sinn og tína upp rusl ef einhver hefur ekki gengið frá eftir sig. 

Frá því 2019 hefur Súðavíkurhreppur styrkt Raggagarð um laun fyrir einum starfsmanni til að sinna garðinum 5 daga vikunnar.  Það var tilkomið vegna covid og eins eru um 18.000 gestakomur í garðinn á ári.  Framkvæmdastjóri garðsins er í vinnu annarstaðar og getur því eins og áður bara unnið í garðinum með eiginmanni sínum í þeira sumarfríi ár hvert.  Hafa þessir frídagar verið kallaðir “Vinnubúðir Vilborgar”  af eiginmanninum.

Eini garðurinn sem vitað er um sem gerður er af einkaframtaki er Bjössaróló í Borgarnesi.  Raggagarður er líklega einstakur á landsvísu þar sem hann er byggður upp af áhugamannafélaginu Raggagarði Súðavík.  Í stjórn eru þrjár manneskjur og tveir til vara .  Auk þess hafa þrír aðrir fengið inngöngu í félagið á síðasta ári þegar félagið varð opnað.  Það eru Oddný Elínborg Bergsdóttir, Jóhanna Rúnarsdóttir og Halldór Már þórisson eiginmaður Boggu.  Þau öll hafa verið ötul í að vinna við garðinn frá upphafi.

Náttúrukrafturinn í Raggagarði er að öllum líkindum komin frá tindinum Kofra ofan við nýja þorpið í Súðavík.  Þar er sagt að sé fjallativi sem ég tala oft við í huganum og bið um hjálp og kærleika fyrir Raggagarð.  Þess er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar en lifir vel í munnmælasögum.  Sagt er að það séu 7 fjöll á íslandi sem hafa óskasteina og er Kofri eitt þeirra. 

Glóey er bók sem kom út fyrir nokrum árum.  Það var kona sem skynjar fjöllin og skrifaði um þau.  Ég hringdi í þessa konu og spurði hvort hún hafi heyrt eða lesið um fjallið Kofra í Þjóðsögunum.  Hún sagðist aldrei hafa heyrt neina þjóðsögu.  Ég spurði hvort ég mætti setja frásögn hennar um Kofra á skilti með þjóðsögunni en það vildi hún ekki.  En ótrúlegt hvað hennar skynjun og þjóðsagan eru líkar.

                                                   Náttúrusteinar á Kofra

Þrír staðir hafa verið þekktastir á Íslandi fyrir náttúrusteina. Einn þessara staða er Kofri, en það er einstakur og hár fjallstindur upp úr öðrum lægri fjallgarði í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Þar skal safna náttúrusteinum, einkum á Jónsmessunótt, við tjörn þá sem sem er uppi á tindinum. Þar er sagt að finnist bæði óskasteinar og aðrir fáséðir hlutir. Óskasteinn heitir svo af því að hvers sem maður óskar sér þegar maður hefur hann fær maður ósk sína uppfyllta.
Hella ein, sem sumir segja að sé hol að innan, er í Kofra og getur af sér hvers konar náttúru á Jónsmessunótt. Sú hella heitir Steinamóðir.

Íslenskar þjóðsögur og ævintýri
Jón Árnason


SteinamóðirÞess er getið í þjóðsögum að til séu hellusteinar sem geti af sér aðra steina og hafi menn þannig komist fyrir upptök grjótsins og er þar miðað við hina lifandi náttúru, samanber selamóður, flyðrumóður o.fl.
                                                  Íslenskar þjóðsögur og sagnir     Sigfús Sigfússon

                              Úr bókinni Glóey

Fjallið Kofri í Álftafirði vestra er eitt af höfuðhofum Íslands.  Þetta fjall hefur Djúpar og kröftugar rætur í Vestfiskri nátturu; rúm þess er mikið og umfang allt, bæði um land og lög.

 Kofrinn er heilagt fjall og einstakt að því leyti að það tengist sérstakri bylgjutíðni sem er frekar fágæt meðal vestfiskra fjalla.  Segulsvið þess er magnþrungið.  Það dregur að sér og endurkastar lífrænum geislum, er mynda orkuhjúp yfir Álftafirði og öllum Vestfjörðum, og er einna kraftmestur um hæstan sólargang í kringum Jónsmessuna.  Þá er líkt að fjallið opnist og allir þeir huldu kraftar sem í því búa streyma fram í krystaltærri birtu.

 Kofrinn er söngur fortíðarinnar og mikill fjársjóður fyrir jarðfræðinga og náttúrufræðinga að kanna.  Hringinn í kringum fjallið standa helgir andar vörð um þá leyndu dóma sem í því búa.  Í Kofranum er háaltari og helgiskrín, sem varðveitir lykilinn að andlegu og menningarlegu hlutverki Vestfjarða fyrir sögu Íslands.

 Kofri er tengdur því gullna neti sem er yfir Íslandi og breiður úr sér yfir allan hnöttin.  Fjallið er lýsandi lampi.     

Höf: Ingibjörg S Hjörleifsdóttir.    Ísafirði 2004

Öll sjálfboðavinna hjónanna Vilborgar og Halldórs er gjöf þeirra til Vestfirðinga og til Íslensku þjóðarinnar.

DEILA