Ráðherra lýsir andstöðu við sjókvíaeldi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra segist  lengi hafa talað fyrir því „að lax­eldi í sjó verði að þró­ast úr opnum sjó­kvíum yfir í lok­aðar sjó­kvíar og/eða fær­ast upp á land. Umhverf­is­á­hrif opins sjó­kvía­eld­is, hvort sem horft er til stað­bund­innar meng­unar frá úrgangi, laxalúsar eða erfða­blönd­unar við villtan lax, eru að mínu mati of mik­il.“

Þetta kemur fram í grein sem ráðherrann skrifar á Kjarnann og birtist í gær. 

Guðmundur Ingi minnist á það að í lok maí 2022 skip­aði mat­væla­ráð­herra fjóra starfs­hópa til að greina áskor­anir og tæki­færi í sjáv­ar­út­vegi og tengdum greinum, þar með talið fiskeldi, ásamt því að meta þjóð­hags­legan ávinn­ing fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­is­ins. „Úr þeirri vinnu erum við að stefna á að skapa nýjan ramma þegar kemur að því hvernig við umgöng­umst og ávöxtum auð­lind­irnar okkar á sem bestan hátt.“

Ráðherrann segir að mik­il­vægi fiskeldis fari ört vax­andi, bæði á lands­vísu og í byggðum þar sem hallað hefur undan fæti og því sé einmitt mik­il­vægt „að tekin verði stefnu­mót­andi ákvörðun um hvernig við viljum sjá fisk­eldi þró­ast á næstu árum og ára­tug­um, í sátt við nátt­úr­una. Ég von­ast til að við fáum góðar til­lögur úr starfs­hópum mat­væla­ráð­herra.“

Hvert stefna vinstri grænir?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra er einnig varaformaður flokks Vinstri grænna, flokks forsætisráðherra og matvælaráðherra. Þarna lýsir varaformaðurinn nokkuð skýrt hvað hann vill að komi út úr endurskoðun á stefnu fyrir fiskeldið. Verði það opinber stefna að færa það upp á land þýðir það einfaldlega að að laxeldið leggst af á Vestfjörðum. Það eru ekki landkostir til staðar. Með slíkri stefnumörkun verða Vestfirðingar sviptir möguleikanum að nýta náttúrulega auðlind fjórðungsins, lífríkið í fjörðunum, til þess að skapa verðmæti upp á marga tugi milljarða króna á hverju ári. Hinn kosturinn sem varaformaður Vinstri grænna vill sjá eru lokaðar eldiskvíar í sjó. Þær eru ekki raunhæfur kostur í nálægri framtíð en verði það einhvern tíma mögulegt þá er spurningin hvort þær verði nokkuð á Vestfjörðum. Hafsvæði sem eru í dag lokuð fyrir sjókvíaeldi, sem reyndar er stærstur hluti strandlengju landsins, utan Vestfjarða og hluta Austfjarða, verða væntanlega opin fyrir lokaðar eldiskvíar. Með öðrum orðum , forskot Vestfjarða, myndi ekki vera lengur til staðar.

Varaformaður Vinstri grænna er þeirrar skoðunar að umhverfisáhrifin af sjókvíaeldi á Vestfjörðum séu of mikil og leggst gegn starfseminni. Það eldi, sem hann getur samþykkt, mun verða á sunnanverðu landinu þar sem land er nægilegt og nálægt útflutningshöfnum og flugvelli landsins. Hann væntir þess að endurskoðun stefnunnar undir forystu Matvælaráðherra, flokksbróður síns, skili góðum tillögum.

Grein ráðherrans nefnist: eftir ræðurnar göngum við í verkin.

Spurningin er hvort aðrir stjórnarflokkar láti teyma sig til þeirra óhæfuverka að koma laxeldi á Vestfjörðum fyrir kattarnef.

-k

DEILA