Nám óháð búsetu

Möguleikarnir til að stunda nám óháð búsetu er einn af lykilþáttum þess að jafna réttindi landsmanna til að sækja sér menntun og reynslu.

Síðustu tvö ár voru strembin en þau hafa engu að síður verið öllum lærdómsrík og þroskandi að mörgu leyti. Við lærðum hvað við erum samheldin þegar kemur að vá sem við erum öll að glíma við, við lærðum mörg að vera lausnamiðuð og leysa flóknar aðstæður og krefjandi verkefni.

Flestar starfsstéttir þurftu að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og grípa boltann og skipuleggja sig upp á nýtt. Við þessar aðstæður var okkur ýtt úr fyrir þægindarammann og við þurftum að aðlaga okkur að stöðunni.

Fjarfundir, fjarviðtöl, fjarnám, fjarmeðferðir og fjarvinna fóru að verða eðlilegt fyrirkomulag í daglegu lífi. Þegar draga fór úr samkomutakmörkunum og fólk fór að hittast aftur í raunheimi þá dró verulega úr fjar-möguleikunum. Vissulega er gott og gaman að hittast en það er hægt að gera bæði; hittast en auka fjar-möguleikana. 

Auðvitað voru hnökrar í upphafi, það er eðlilegt þegar verið er að innleiða nýjar aðferðir og nýtt fyrirkomulag. Flestir tóku þessu nýja fjar-fyrirkomulagi fagnandi. Margir hentu sér á vagninn og skelltu sér í nám, því nú var nám í boði óháð staðsetningu. En svo þegar við fórum að geta hagað okkar lífi eðlilega aftur þá fækkaði fjar-möguleikunum aftur. Hvernig stendur á því? Við erum búin að læra á þessa tækni og tileinka okkur hana, þá eigum við að efla hana og nýta okkur til fulls. Möguleikarnir á fjarnámi hafa margfaldast en við getum alltaf gert betur. Flest nám er hægt að bjóða upp á í gegnum netið, það er bara spurning um útfærslu. Íbúar landsbyggðarinnar eiga ekki að þurfa að rífa sig upp og flytja búferlum til þess að geta stundað nám. Þegar fólk hefur lokið grunnmenntun sinni á háskólastigi eru sumt hvert búið að stofna fjölskyldu, fjárfesta í fasteign eða komin í starfs sem það vill ekki sleppa, einnig er maki mögulega kominn í sitt draumastarf. Þá eru valmöguleikarnir ekki margir. Námsmaðurinn verður að flytja, búa í fjarbúð við fjölskyldu sína og leiga íbúð á námssvæði. Það sjáum við öll, að þetta er galið dæmi.

Með auknum möguleikum á fjarnámi munu einstaklingum með aukna menntun fjölga um land allt. Einstaklingar sem munu starfa í margvíslegum geirum og stuðla að bættu samfélagi og auka framlegð þess til lengri tíma. Einstaklingar sem annars hefðu ekki tækifæri til náms. Þannig munu auknir möguleikar á fjarnámi leiða til betra samfélags. Betra Ísland.

Það hefur verið erfitt að manna í stöður á sjúkrahúsum um land allt og það höfum við einnig staðið frammi fyrir, hérna fyrir Vestan.

Á síðustu árum hefur grunnnám í fjarnámi aukist en betur má ef duga skal og má efla til muna meistaranám í fjarnámi. Hér búa einstaklingar með góða grunnmenntun sem vilja auka við sig nám á meistarastigi. Við myndum efla töluvert af fagþekkingu ef það væri fjarnám í boði fyrir þessa einstaklinga.

Ég skora á Háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur að standa við sín loforð og efla fjarnám á grunn- og meistarastigi og gefa öllum landsmönnum færi á að mennta sig óháð staðsetningu.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs í Bolungarvík.

DEILA