Næsta KSÍ þing verður á Ísafirði

Íþróttahúsið Torfnesi þar sem næsta KSÍ þing verður haldið.

Knattspyrnusamband Íslands heldur 77. ársþing sambandsins þann 25. febrúar næstkomandi á Ísafirði. Búast má við að rúmlega 200 þingfulltrúar, ásamt gestum, muni leggja leið sína vestur til Ísafjarðar í tengslum við þingið. Haldið verður sérstakt málþing í aðdraganda ársþings á föstudeginum 24. febrúar og veisla að loknu ársþingi að kvöldi 25. febrúar. Von er á erlendum gestum bæði frá Knattspyrnusambandi Evrópu og Alþjóða Knattspyrnusambandinu á þingið og verðum þeim sýnd sú aðstaða sem ungt íþróttafólk á Vestfjörðum býr við. Þá mun stjórn KSÍ, ásamt fulltrúum landsfjórðunga, funda í húsakynnum Vestra þann 24. febrúar.

Í bréfi KSÍ til Ísafjarðarbæjar kemur fram að það sé mikið metnaðarmál fyrir KSÍ að halda ársþing sambandsins reglulega utan höfuðborgarsvæðisins og hafa þing m.a. farið fram í Vestmannaeyjum og í Ólafsvík á síðustu árum. Í tengslum við þingið hefur verið leitast við að styðja við framgang íþrótta á viðkomandi svæðum og boðið upp á fundi með heimafélögum.

Kaupa þjónustu af heimafólki

Það er kostnaðarsamt fyrir KSÍ að halda ársþing á landsbyggðinni segir í bréfinu. Leigja þarf góða aðstöðu og tæknibúnað fyrir þingið sjálft og flytja þarf á staðinn mannafla vegna framkvæmdar á ársþingi með tilheyrandi kostnaði vegna gistingar og uppihalds. Slíkur kostnaður getur verið umtalsverður. KSÍ mun að auki greiða fyrir veitingar allra þinggesta á þeim viðburðum sem tengjast þinginu. KSÍ mun kappkosta við að kaupa alla þá þjónustu sem þarf beint frá heimafólki. Þingið verður haldið í íþróttahúsinu á Torfnesi.

KSÍ óskar eftir því við bæjarráð Ísafjarðar að knattspyrnusambandið njóti eins hagstæðra kjara og kostur er á vegna leigu á húsnæði í tengslum við 77. ársþing KSÍ dagana 24. – 25. febrúar 2023.

Í bókun bæjarráðs á fundi þess í gær segir að bæjarráð feli bæjarstjóra að vinna málið áfram.

DEILA