Móta stefnu um þjónustustig innan sveitarfélags en utan stærstu byggðakjarna

Bíldudalur 2019.

Innviðaráðuneytið hefur falið Byggðastofnun að gera fyrirmynd varðandi það hvernig sveitarfélög geti útfært stefnu um þjónustustig til byggðarlaga utan stærstu byggðarkjarna viðkomandi sveitarfélags.

Tilefnið er nýtt ákvæði í sveitarstjórnarlögum , sem kveður á um að „sveitarstjórn skuli móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðarkjörnum.“

Á Vestfjörðum mun þetta nýja lagaákvæði varða a.m.k. bæði Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ sem eru svonefnd fjölkjarnasveitarfélög.

Lagaákvæðinu sem var lögfest sumarið 2021 hefur ekki verið framfylgt en ráðuneytið hefur tilkynnt sveitarfélögunum að leiðbeiningar og fyrirmynd muni liggja fyrir í vor sem sveitarfélög geta nýtt sér til að móta stefnu fyrir næsta ár. Norðurþing varð fyrir valinu sem tilraunasveitarfélag í þessu verkefni og samstarf við sveitarfélagið hófst fljótlega eftir að sú ákvörðun var tekin.

Í greinargerð með frumvarpinu á sínum tíma segir að slík stefnumótun sé hluti af því að „sveitarfélög gæti að veikari byggðum eða byggðarlögum innan vébanda sinna og móti sér stefnu í þeim efnum. Þá er þessi regla í samræmi við aðgerð A.18 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018—2024 en þess má geta að Byggðastofnun hefur unnið með landshlutasamtökunum við að skilgreina þjónustustig opinberrar grunnþjónustu eftir stærð þéttbýlis sem nýst gæti sveitarfélögunum í þessum efnum.“

Í frekari rökstuðningi fyrir umræddri breytingu sagði í greinargerðinni:

 Ljóst er að með fækkun sveitarfélaga munu jafnframt myndast víðáttumikil sveitarfélög, mögulega með fáum og stórum byggðakjörnum en viðkvæmari byggð á öðrum svæðum innan sveitarfélaganna. Því er mikilvægara en áður að stefna sveitarstjórnar varðandi þjónustustig á slíkum svæðum verði skýr og komi til sérstakrar umræðu og er því lögð til sú skylda á sveitarstjórn að mynda og móta slíka stefnu eftir sérstakt samráð við íbúa sveitarfélagsins, t.d. með opnu umsagnarferli. Ekki er getið sérstaklega um þá þjónustu sem beri að greina frá í stefnunni en gert er ráð fyrir að það verði á ábyrgð sveitarstjórnar að móta heildarstefnu fyrir hverja byggð eða byggðarlag fyrir sig og gera grein fyrir ætluðu þjónustustigi vegna einstakra verkefna sem sveitarfélagið hyggst veita á viðkomandi svæðum, t.d. skólahalds, ferða skólabíla, opnunartíma sundlauga, reksturs félagsheimila o.s.frv. Þá er almennt gert ráð fyrir að sveitarfélag myndi ávallt stefnu um öll þau byggðasvæði sem eru utan stærstu byggðakjarna. Það er hins vegar lagt í hendur sveitarfélaga að ákvarða hvort og hvernig svæði verði skipt frekar upp með tilliti til þjónustustigs, svo sem með því að flokka svæði eftir ákveðinni fjarlægð frá byggðakjarna eða miða við eldri skipan sveitarfélaga eða hreppa.“

DEILA