Minnst ánægja með stjórnarandstöðuna á Vesturlandi og Vestfjörðum

Í könnun Maskínu , sem birt var rétt fyrir áramót kemur fram að mjög hefur dregið úr ánægju með störf ríkisstjórnarinnar frá síðustu alþingiskosningum. Þá voru 39% svarenda ánægðir en hlutfallið hefur fallið niður í 26% eða um þriðjung. Hins vegar hefur stjórnarandstaðan ekki unnið á að neinu marki. Ánægja með störf stjórnarandstöðunnar hefur aukist úr 12% í 14% á sama tíma.

Óánægja með störf ríkisstjórnarinnar mælist nú 42% og stjórnarandstaðan fær litlu skárri einkunn, en 37% svarenda eru óánægðir með störf hennar.

Svo sem vænta mátti eru stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna yfirgnæfandi ánægðir með ríkisstjórnina ( 59%) og stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna að sama skapi mjög samstíga í því að vera óánægðir (67%).

Þegar skoðuð er greining svaranna eftir landssvæðum kemur í ljós að Reykjavík sker sig úr bæði í afstöðu til ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Ánægjan með ríkissjórnina er minni í Reykjavík en annars staðar á landinu, 23% á móti 26-28% og óánægjan með ríkisstjórnina er meiri 46% samanborðið við 38-40% annars staðar.

Meiri ánægja er með stjórnarandstöðuna í Reykjavík en á öðrum landssvæðum. Ánægjan mælist 17% þar en 8%-14% annar staðar. Minnst er ánægjan með stjórnarandstaðan á Vesturlandi og Vestfjörðum eða aðeins rúm 8%.

Óánægja með stjórnarandstöðuna mælist 35-37% og er svipuð á öllum landssvæðum nema Norðurlandi þar sem óánægjan fer upp í 43%.

Könnun þessi var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu. Könnunin fór fram frá október til desember 2022 og voru svarendur 6.542 talsins.

DEILA